Ísleifur VE og Breki VE með fullfermi, miklar annir í vinnslunni

Ísleifur VE kom til hafnar í morgun af kolmunnamiðum suður af Færeyjum með fullfermi eða um 2.000 tonn. Löndun hófst þegar í stað. Þetta var fyrsta veiðiferð skipsins á kolmunna á vertíðinni.

Óhætt er að segja að mikill gangur sé í veiðum og vinnslu hjá VSV þessa dagana. Til að mynda var unnið í saltfiski alla helgina og unnin samtals liðlega 210 tonn í salt á laugardag og sunnudag. Áfram er unnið við að salta og pakka saltfiski í dag og í morgun var byrjað að flaka ufsa og karfa í frystingu.

Brynjólfur VE fékk mjög góðan afla í gær og úr honum var landað 179  körum í gærkvöld.

Þá var landað 163 körum úr Drangavík VE og hún fer aftur út í kvöld.

Á laugardaginn var landað 163 körum úr Kap II. Skipið fór á ný til veiða í morgun.

Breki VE kom með fullfermi á laugardaginn, 515 kör. Þetta var þorskur og blanda af öðrum tegundum.

Já, það er mikið um að vera hjá okkur til sjós og lands og verður næstu daga. Vinnuvikan er í styttra lagi núna vegna 1. maí á föstudaginn. Þess vegna verður unnið stíft fram eftir vikunni,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV.

Rétt er að taka fram að allar öryggisráðstafanir VSV vegna veirufaraldursins gilda áfram til sjós og lands. Þar hefur hvergi verið slakað á. 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.