Íslendingar seldu loðnuhrogn  fyrir 66 milljarða króna 2009-2018

Það hefur tekið okkur um fjörtíu ár að búa til markað fyrir loðnuhrognin í Japan og hættan er sú að ef ekki berst hráefni í tvö ár færist neyslan yfir á aðra afurð [...] Þegar talað er um loðnuhrogn í Japan er átt við íslensk loðnuhrogn, ekkert annað.“

Akaimasa Takuma, forstjóri og aðaleigandi Azuma Foods, stærsta fyrirtækisins í vinnslu og sölu loðnuhrogna í Japan, dregur þannig saman í fáum orðum mögulegar/líklegar afleiðingar þess ef loðna veiðist ekki við Ísland annað árið í röð. Tilvitnunin er úr viðtali í Morgunblaðinu 29. janúar 2020 (sjá hér fyrri hluta viðtals og síðari hluta).

Meira er í húfi fyrir japanskan markað, sjávarútveg og þjóðarbú á Íslandi en margan grunar. Boðskapur fulltrúa þriggja japanskra fyrirtækja í Íslandsferð í fyrri viku var því afskaplega skýr. Þeir lögðu til við Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra að gefinn yrði út lágmarkskvóti í loðnu til þess hreinlega að reyna að koma í veg fyrir varanlegar og alvarlegar breytingar á markaði loðnuhrogna.

Í hnotskurn heildarmyndin svona:

  • Íslendingar sjá kaupendum fyrir 85% loðnuhrogna á heimsmarkaði.
  • Verðmæti útfluttra loðnuhrogna frá Íslandi nam liðlega 66 milljörðum króna frá 2009 til 2018.
  • Útflutningsverðmætið hefur aukist undanfarin ár og var að meðaltali um 7 milljarðar króna á ári, fyrir loðnubrestinn 2019.
  • Allir markaðir fyrir loðnuhrogn eru nú tómir.

Fjarri því að íslenskar sjávarafurðir „selji sig sjálfar“

Nishiro Yamazaki, framkvæmdastjóri innkaupa og framleiðslu uppsjávarafurða úr Norður-Atlantshafi hjá Maruha Nichiro, stærsta framleiðslufyrirtæki sjávarfangs í veröldinni (11 þúsund starfsmenn, velta um þúsund milljarðar króna á ári), segir í Morgunblaðinu um afleiðingar loðnubrests líka 2020:

„Til dæmis myndi það hafa í för með sér að allar birgðir myndu klárast í júní 2020, eftir það verður ekki unnið úr neinu hráefni sem um sinn gerir það að verkum að framleiðendur verða að nýta annað hráefni eða í versta tilfelli segja upp starfsfólki. Hvað varðar loðnuhrogn gætum við þurft að styðjast við annað hráefni eins og síldarhrogn. Þegar hráefninu hefur verið skipt út er ekki endilega líklegt að loðnuhrognin verði tekin til notkunar á ný þó að loðnukvóti verði gefinn út á næsta ári.“

Vel má vera að einhverjir geri lítið úr þessum varnaðarorðum japanska kaupsýslumannsins af því íslenskar sjávarafurðir „selji sig sjálfar“ og markaðurinn „jafni sig“ síðar. Það er bara því miður fjarri veruleikanum.

Yamazaki vísar til dæmis til þess að loðnuhrogn koma fyrir í innihaldslýsingu á vöruumbúðum verslunarkeðja og það þarf nýjar umbúðir fyrir allan Japansmarkað ef síldarhrogn koma í stað loðnuhrogna. Það tekur verslunarfyrirtækin þar að auki að lágmarki hálft ár að samþykkja breytta innihaldslýsingu og engan veginn er gefið að þau taki annan slíkan snúning 2021 ef loðnukvóti verður þá gefinn út við Ísland, með öllum þeim kostnaði sem svona snúningum fylgir.

Ónefnd eru þá örlög lítilla fjölskyldufyrirtækja vítt og breitt um Japan sem framleiða loðnuafurðir til neytenda. Við þeim blasa þrengingar, uppsagnir starfsfólks, meginbreytingar í rekstri í ljósi loðnubrests eða í versta falli þrot.

 

 

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.