Úr gæðaeftirliti makríls áleiðis í flugvélaverkfræði

Flugvélar hafa heillað mig lengi. Það hljómar kannski fjarstæðukennt en draumurinn er einfaldlega að starfa í framtíðinni við að hanna flugvélar. Ég kann ekki að skýra þennan áhuga en þannig er þetta bara og ég ætla að leggja hart mér til að láta drauminn rætast,“ segir Hafdís Magnúsdóttir, verkfræðinemi og sumarstarfsmaður í uppsjávarvinnslu VSV. Hún er Eyjamaður í báðar ættir og býr í Vestmannaeyjum.

Hafdís útskrifaðist sem stúdent af eðlisfræðibraut Verslunarskólans vorið 2018 og hafði sérstakan áhuga á eðlisfræði og stjörnufræði. Hún hóf í framhaldinu nám í umhverfis- og byggingarverkfræði í Háskóla Íslands en stefndi jafnframt mun hærra, til himins í bókstaflegum skilningi.

Ég sótti um verkfræðinám í háskóla í Indíana í Bandaríkjunum og fékk tilkynningu um það snemma árs 2020 að ég stæðist inntökuskilyrðin. Þar með var ákveðið að hætta í HÍ en fara utan seinna í sumar og hefja grunnnám í verkfræði í Indíana með það að markmiði að fara síðan í flugvélaverkfræði að grunnnámi loknu. Nemendur verða að standa sig á fyrsta árinu til að komast áfram og ég ætla mér að ná markmiðinu.

Nú er ég í uppsjávarvinnslu VSV þriðja sumarið í röð og líkar afar vel. Ég er yfirleitt í pökkuninni en var líka í gæðaeftirliti í fyrra og leysi af í gæðaeftirlitinu líka í sumar.

Hér gott að vinna og ágætis tekjur koma sér vel í dýru námi í Bandaríkjunum.“

  • Á efstu myndinni eru Ingigerður Guðrún Helgadóttir, flokksstjóri í uppsjávarvinnsluhúsinu t.v., og Hafdís Magnúsdóttir. Síðan fylgja myndir af Hafdísi að taka sýni, vega, meta, mæla og prófa framleiðsluna. Gæðaeftirlit er umfangsmikið og strangt í öllu ferlinu frá upphafi til enda.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.