Þrjú slysalaus VSV-skip á árinu 2018

„Auðvitað er ánægjulegt fyrir mig og áhöfnina að ekkert slys hafi orðið um borð á árinu 2018 sem kostaði fjarveru frá vinnu. Aðalatriðið er samt að halda áfram á sömu braut og fagna helst líka slysalausu árinu 2019. Verkefnið er viðvarandi og kallar á að menn séu vakandi fyrir hættum í umhverfinu og ræði málin til að ná enn betri árangri,“ segir Kjartan Sölvi Guðmundsson, skipstjóri á Drangavík VE.

Áhafnir þriggja skipa Vinnslustöðvarinnar gátu um áramótin glaðst yfir því að ekkert „fjarveruslys“ átti sér stað um borð á árinu 2018, það er að segja á Brynjólfi VE, Kap VE og Drangavík VE. Í atvikaskráningu er það kallað fjarveruslys þegar sjómaður er frá vinnu einn vinnudag eða fleiri eftir meiðsl eða slys. Á Drangavík voru þrjú fjarveruslys skráð 2017 og þrjú árið 2016. Breytingin 2018 var því kærkomin og ánægjuleg.

Fjarveruslys á öðrum skipum VSV á árinu 2018 voru alls 13

VSV hefur í samstarfi við tryggingafélag fyrirtækisins, VÍS, tekið í gagnið kerfi atvikaskráningar í öllum skipum sínum. Allir um borð hafa aðgang að tölvu í brúnni þar sem hægt er að skrá ábendingar, næstum-slys, minniháttar slys, fjarveruslys eða ógnir. Skráning er ekki persónurekjanleg. Skipstjóri hefur aðgang að því hvað áhöfn hans skráir ekki hver skráir.

Í höfuðstöðvum VSV í landi heldur Hrefna Jónsdóttir, starfsmanna- og öryggisstjóri, utan um verkefnið sjálft og upplýsingarnar sem fást með skipulegri skráningu úti á sjó.

„Við tökum öryggismál til sjós og lands alvarlega og erum sífellt að reyna markvisst að bæta okkur og gera vinnuumhverfi starfsfólksins öruggara. Sérstaklega beinum við athygli að ungum og óreyndum sjómönnum, sem eðli máls samkvæmt eru meiri áhættuhópur en þeir eldri og reyndari.“

Atvikaskráningarkerfið í skipum VSV var ekki tengt og tilbúið fyrr en í áliðnum janúar í ár. Engin reynsla er því til staðar til að draga ályktun. Fróðlegt verður hins vegar að sjá hvernig sjómennirnir tileinka sér og nota kerfið til að koma skilaboðum og ábendingum á framfæri. Þarna geta þeir til dæmis gert viðvart um einelti, ógnandi viðskiptavini eða starfsmenn, hættulega hegðun, hættuleg efni á glámbekki, drasl í gangvegi, hálkuhættu vegna bleytu eða hættulegar vinnustæður. Ef hlífðarbúnaður er ekki notaður er sömuleiðis hægt að láta vita af því. Nefna má líka skort á slökkvitækjum, brennanleg efni nálægt vélum og hiturum, eldvarnahurðir sem virka ekki eða eru skildar eftir opnar. Og svo framvegis.

Svo má nefna líka „næstumslysin“ sem hægt er að tilkynna. Menn geta dottið, rekist á hitt og þettas, klemmst eða fengið yfir sig gusu af heitu vatni en sloppið betur en á horfðist.

Markmiðið er auðvitað að bæta öryggismenningu VSV, fækka slysum og koma í veg fyrir tjón. Efla forvarnarstarfið á alla lund. Þar fara saman hagsmunir Vinnslustöðvarinnar, starfsfólksins og tryggingafélagsins VÍS. Öruggara umhverfi skapar einfaldlega betra samfélag.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.