Þverbeygði úr viðskiptafræði í rafvirkjun

Hann ætlaði að verða viðskiptafræðingur, skráði sig í viðskiptafræðideild Háskóla Íslands á árinu 2007 þegar góðærisveislan á höfuðborgarsvæðinu stóð sem hæst og átti bara eftir að borga staðfestingargjaldið. Svo áttaði hann á sig á því að hugurinn stóð í raun til allt annars og svissaði yfir í rafvirkjun. Bankarnir hrundu, veislunni lauk með látum en þá var Rikki – Rikharð Bjarki Guðmundsson farinn úr partíinu og kominn á þá braut sem hann valdi sér og er í hæsta máta lukkulegur með.

„Þarna rétt fyrir efnahagshrunið vildu flestir verða lögfræðingar eða viðskiptafræðingar sem á annað borð veltu fyrir sér framhaldsnámi. Ég fékk snert af sömu veiki líka en braggaðist í tæka tíð!

Um sumarið var ég á sjó og hafði góðan tíma til að hugsa málið. Niðurstaðan varð sú að mig langaði í raun ekki til að læra viðskiptafræði, sú grein ætti einfaldlega ekki við mig. Í staðinn ákvað ég að velja frekar rafvirkjun. Því námi hef ég lokið og er núna í framhaldinu að taka meistaraáfangann í Rafiðnaðarskólanum í Reykjavík. Meistaraskólinn er á þriðja tug námskeiða sem standa yfir frá fimmtudegi til sunnudags fyrir sunnan og 26 einingar í bóklegu námi. Ég er kominn langleiðina í mark, á 7 helgarnámskeið eftir.“

Rafvirkja er þörf hvenær sem er sólarhringsins

Rikki er einn fjögurra rafvirkja í starfsmannahópi Hafnareyrar og var truflaður til spjalls eitt augnablik við störf sín í uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar. Þar var eitt og annað sem þurfti að gera við eða dytta að í vinnsluhléi á makrílvertíðinni. Þannig er það og verður, hvort sem er að nóttu eða degi. Rafvirkja er þörf á öllum tímum sólarhrings eins og svo margra annarra fagmanna í ýmsum greinum samfélagsins.

„Suma dagana er eins og allt þurfi að gerast samtímis og verkefnalistinn er langur. Aðra daga er rólegra. Verkefnin skortir ekki og við rafvirkjarnir hjá Hafnareyri höfum nóg með að sinna starfsemi Vinnslustöðvarinnar á öllum sviðum, yfir meira komumst við í bili.

Rafvirkjunin á afar vel við mig, starfið er bæði fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hef síður en svo séð eftir því að hafa tekið rafvirkjun fram yfir viðskiptafræði forðum.

Dagarnir eru fljótir að líða og alltaf nóg að gera á góðum vinnustað með góðu fólki. Það er ekki hægt að biðja um meira.“

Afabarn Sighvats Bjarnasonar

Rikki rafvirki er gegnheill Vestmannaeyingur að uppruna, meira að segja af Vinnslustöðvarættum. Langafi hans var sjálfur Sighvatur Bjarnason, kunnur skipstjóri og aflakóngur sem þekktastur er samt fyrir að hafa verið framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar áratugum saman, allt frá 1959 og fram yfir Heimaeyjargosið.

Enn er í minnum haft að gosárið 1973 fluttu Sighvatur og eiginkonan Guðmunda í verbúðir Vinnslustöðvarinnar og bjuggu þar á meðan ósköpin gengu yfir.

Rikki er því sannarlega á réttum slóðum í tilverunni. Genin eru ekta.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.