Hæstiréttur dæmir Vinnslustöðinni í vil í sameiningarmálinu

Hæstiréttur staðfesti í dag ákvörðun hluthafafundar í Vinnslustöðinni (VSV) frá 8. október 2014 um samruna VSV og Ufsabergs útgerðar ehf. og ákvörðun um aukningu hlutafjár í VSV og tiltekna ráðstöfun þess í tengslum við samrunann. Hæstiréttur sneri þar með við dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 25. nóvember 2015.

Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfur Stillu útgerðar ehf., félags sem er í eigu Guðmundar og Hjálmars Kristjánssona og er hluthafi í Vinnslustöðinni, um að ógilda samrunann. Vinnslustöðin áfrýjaði síðan héraðsdómnum til Hæstaréttar og krafðist sýknu af kröfu Stillu útgerðar og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Hæstiréttur dæmdi Vinnslustöðinni í vil að öllu leyti í dag; sýknaði Vinnslustöðina af kröfum Stillu útgerðar og dæmdi Stillu útgerð til að greiða Vinnslustöðinni tvær og hálfa milljón króna í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

Helgi Jóhannesson hæstaréttarlögmaður fór með mál Vinnslustöðvarinnar fyrir Hæstarétti. Hann segir um niðurstöðuna:

 „Ég er auðvitað hæstánægður með að þetta deilumál skuli leitt til lykta með svo afgerandi hætti og að samruni félaganna tveggja gangi nú eftir eins og til var stofnað. Héraðsdómurinn í fyrra skapaði bæði eigendum Vinnslustöðvarinnar og fyrrum hluthöfum í  Ufsabergi útgerð óvissu sem Hæstiréttur hefur nú eytt.“

 Hæstaréttardómurinn í heild sinni

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.