Hátíðardagur sem verður í minnum hafður

Laugardagurinn 15. október varð Vinnslustöðinni og starfsmönnum hennar til lukku á allan hátt. Um 400 gestum í opnu húsi nýju uppsjávarvinnslunnar þótti mikið til koma og að kvöldi var slegið upp fjölmennustu árshátíð í 70 ára sögu félagsins. Þar voru um 450 manns og glæponinn Kenneth Máni tryllti lýðinn úr hlátri með tilburðum sínum við veislustjórnina.

Kenneth Máni í ham á árshátíðinni.

Saman var slegið fagnaðarfundi vegna nýju uppsjávarvinnslunnar, árshátíð og snemmbúinni veislu í tilefni sjötugsafmælis VSV 30. desember. Úr varð afskaplega vel heppnað mannamót í uppsjávarhúsinu og eftirminnilega skemmtileg veisla í Höllinni.

Bæjarbúar og aðkomugestir voru afar hrifnir af því sem þeir sáu og heyrðu í opna húsinu. Þeir fengu lýsingu og skýringu starfsfólks á vinnsluferlinu og gátu glöggvað sig enn betur með því að horfa á splunkunýtt og gott kynningarmyndband frá SIGVA Media, Sighvati Jónssyni, í einum af nýju frystiklefunum. Í næsta klefa sýndi Addi í London flottar ljósmyndir af framkvæmdaferlinu.

Í tveimur öðrum frystiklefum var annars vegar kynning á sölu- og markaðsstarfsemi VSV og hins vegar vörukynning á vegum tveggja Eyjafyrirtækja sem Vinnslustöðin er meðeigandi í: Marhólma og Idunn Seafoods. Auðheyrt var að starfsmenn Marhólma og Idunn Seafoods komu sveitungum sínum og aðkomufólki þægilega á óvart. Fæstir höfðu gert sér ljósa grein fyrir því hve umfangsmikil fullvinnsla sjávarafurða er hjá þessum félögum og hve miklum árangri þau hafa náð á erlendum mörkuðum.

Mörgum manninum er enn í fersku minni veislan í Höllinni í desember 2006 þegar fagnað var sexugsafmæli Vinnslustöðvarinnar. Minningin tengist ekki síst því að flugvél með boðsgestum að sunnan hringsólaði lengi yfir flugvellinum og varð svo frá að hverfa. Núna komust boðsgestir til Eyja hindrunarlaust og heim aftur um hádegisbil í dag. Veðrið lék hreinlega við Eyjamenn og gesti þeirra um helgina.

Sérstaka athygli vakti í gær sú staðreynd að í nýja uppsjávarhúsinu er blástursfrysting en ekki plötufrysting. VSV-menn spáðu upphaflega í að fara hefðbundna, íslenska leið plötufrystingar en völdu á endanum blástursfrystingu, annars vegar vegna þess að þeir fóru að stúdera hliðstæða starfsemi í Noregi (í flestum uppsjávarvinnslum Norðmanna er blástursfrysting) og hins vegar vegna þess að Asíumarkaður kallar á blástursfrystingu og borgar betur fyrir fisk sem þannig er heilfrystur.

Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, fjallaði um þetta og fleira í ávarpi sínu í opna húsinu í gær:

„Þessi fjárfesting kostar Vinnslustöðina um 1.300 milljónir króna og svo vill til að við ræsum vélar nýrrar uppsjávarvinnslu á sama tíma og Hafrannsóknastofnunin mælir með því að engar loðnuveiðar verði stundaðar á vertíðinni 2016 til 2017.

Er ekki skrekkur í ykkur af þessu tilefni? spyrja okkur ýmsir – eðlilega.

Svar: Nei, eiginlega ekki!

Reynslan sýnir að gera verður ráð fyrir sveiflum í lífríki sjávarins og það gerum við. Loðnubrestur nú hleypir því út af fyrir sig ekki skrekk, þetta nýja hús gera alla vinnslu okkar á öðrum afurðum, svo sem makríl og síld hagkvæmari og betri.

Í öllum öðrum sambærilegum frystihúsum á Íslandi, bæði nýlegum og eldri, er svokölluð plötufrysting. Við völdum aðra leið, blástursfrystingu, og förum því gegn íslenska straumnum að þessu leyti. Vinnsluferli með blástursfrystingu er tæknilega einfaldara og kallar á minni vélbúnað en plötufrystingin.

Við tókum okkur góðan tíma til að velta öllum möguleikum fyrir okkur en það sem réði niðurstöðunni var að skilaboðin frá markaðinum, kaupendum framleiðslunnar okkar, voru alveg skýr, ekki síst á hinum mikilvæga Asíumarkaði.

Skilaboðin voru á þá leið að við fengjum meira fyrir fisk úr blástursfrystingu en hefðbundinni, íslenskri plötufrystingu vegna þess að hráefnisgæðin héldu sér betur í blástursfrystingunni. 

Við hlustuðum á þessar raddir, þessi rök kaupenda okkar og erlendra markaðsráðgjafa okkar.

Vinnslustöðin afkastaði áður um 250 tonnum í frystingu uppsjávarfisks á sólarhring en með nýju vinnslunni aukast frystiafköstin í um 420 tonn á sólarhring.

Afköstin aukast því mikið í vinnsluferli sem er sjálfvirkt að miklu leyti. Hér verða einungis 15 manns á vakt að jafnaði.“

Forseti bæjarstjórnar Vestmannaeyja, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, flutti Vinnslustöðinni hamingjuóskir og kveðjur í forföllum Elliða Vignissonar bæjarstjóra. Hún fjallaði í leiðinni um útreiðina sem sjávarútvegurinn fær í opinberri umræðu, meðal annars í kosningabaráttunni sem geisar þessa dagana:

 „Nýja uppsjávarvinnslan, endurnýjun í skipaflota Vinnslustöðvarinnar og fyrirhuguð stækkun frystigeymslu fyrirtækisins á Eiðinu. Allt eru þetta góð tíðindi fyrir Vestmannaeyjar, fyrir bæjaryfirvöld í Eyjum og fyrir mig sem almennan íbúa þrátt fyrir að ég eigi hvorki svo mikið sem eitt kílógramm aflaheimilda né hlutabréf í fiskvinnslufyrirtæki!

Sveitarfélagið á allt undir að fyrirtæki á borð við Vinnslustöðinni séu við góða heilsu og Vestmannaeyingar allir eiga allt undir því að fyrirtækin þeirra, stór og smá, þrífist vel.

Við Eyjamenn erum afskaplega stolt af sjávarútvegsfyrirtækjunum okkar og höfum ríka ástæðu til. Við erum stolt af áherslu þeirra á sjálfbærni. Stolt af vilja þeirra til að efla byggð. Stolt af einurð þeirra við að auka verðmæti. Stolt af nýsköpun og ferskleika. Við erum stolt af stórvirki eins og því sem við sjáum hér í dag.

Það væri óskandi að Íslendingar almennt væru jafn stoltir af þessum grundvallar atvinnuvegi þótt ekki væri nema vegna þess að við vitum að horft er til íslensks sjávarútvegs víðs vegar að úr veröldinni og skipulag hans talið eftirsóknarvert og til fyrirmyndar. Það er í raun rannsóknarefni af hverju Íslendingar sjálfir eru á sama tíma uppteknir við það þjóðarsport að tala niður þessa atvinnugrein, skipulag hennar og fólkið sem í henni starfar.

Tímanna tákn er að einu spurningarnar um sjávarútvegsmál, sem spyrlar ljósvakamiðla hafa uppi í ermum fyrir frambjóðendur til Alþingis, eru á þá leið hvort þeir lofi ekki upp á æru og trú að stórauka og herða skattheimtu gagnvart útgerðarfyrirtækjum og hirða helst af þeim aflaheimildir til að setja á ríkisuppboð! Þannig boðskapur er hrollvekjandi og orðfæri boðbera hans á köflum beinlínis meiðandi gagnvart þeim sem starfa í sjávarútveginum.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.