Viðurkenning sem segir sögu og skiptir máli

Vinnslustöðin hf. (VSV) er framarlega í hópi framúrskarandi fyrirtækja 2016 samkvæmt mælingu Creditinfo, í 35. sæti af alls 624 fyrirtækjum sem þessa viðurkenningu hlutu við athöfn á Nordicahóteli í Reykjavík í dag. Stjórnarformaðurinn segir að eigendur, stjórnendur og starfsmenn megi sannarlega vera stoltir af árangrinum.

„Auðvitað er afar ánægjulegt fyrir VSV-fólk að fá staðfestingu á því enn einu sinni að fyrirtækið er meðal þeirra sterkustu á landinu. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir í niðurstöðum Creditinfo varðandi styrkleika alls um 36 þúsund fyrirtækja á hlutafélagaskránni. Af öllum þessum skara standast einungis 624 fyrirtæki kröfur til að geta talist framúrskarandi og þar er Vinnslustöðin 35. sæti. Við spilum því tvímælalaust í úrvalsdeildinni!“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, um viðurkenningu dagsins.

„Þetta er bæði viðurkenning á því sem vel er gert og hvatning til að halda áfram á sömu braut. Við höfum fetað okkur áfram í rekstrinum markvisst, örugglega og af varfærni og fögnum árangrinum sem það skilar.

Ég vil í leiðinni óska félögum okkar hjá útgerðarfélaginu Þorbirni í Grindavík til hamingju með að hafa fengið sérstök verðlaun fyrir nýsköpun í sjávarútvegi. Þorbjörn er vel að þeirri viðurkenningu kominn og ástæða er líka til að hrósa Creditinfo fyrir að varpa ljósi á að einnig í sjávarútvegi á sér stað merkileg nýsköpunarstarfsemi.“

Myndin: Gunnar H. Egilson frá Creditinfo t.v. afhentir Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni VSV, viðurkenninguna í dag.

Grillmarkaður og Fálkinn verðlaunaðir sérstaklega 

Í tíu efstu sætum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki 2016 eru Icelandair Group, Samherji, Icelandair, Marel, Reitir fasteignafélag, Össur, HB Grandi, Síldarvinnslan, Norðurál og Eik fasteignafélag.

Veitingahúsið Grillmarkaðurinn í Reykjavík hlaut verðlaun fyrir að vera „yngsta fyrirtækið í erfiðasta atvinnuflokknum“, sem er hótel- og veitingageirinn. Í þessum flokki fyrirtækja eru hlutfallslega mest vanskil. Grillmarkaðurinn var stofnaður árið 2011.

Fálkinn hlaut verðlaun fyrir að vera „hástökkvariinn“ í hópnum, þ.e. það félag sem færði sig lengst upp stigatöfluna frá fyrra ári. Fálkinn var í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun árið 1904 til ársbyrjunar 2015 þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum.

Skilyrðin sjö þarf að uppfylla til að teljast framúrskarandi 

  1. Fyrirtækið sé í lánshæfisflokki 1-3.
  2. Rekstrarhagnaður (EBIT) og ársniðurstaða jákvæð þrjú ári í röð.
  3. Eiginfjárhlutfall 20% eða meira en þrjú rekstrarár í röð.
  4. Eignir hafi humið 80 milljónum króna eða meira þrjú ár í röð.
  5. Framkvæmdastjóri skráður í hlutafélagaskrá.
  6. Fyrirtækið virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
  7. Fyrirtækið hafi skilað ársreikningi fyrir 1. september 2016.
Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.