„Svona mikil og góð loðna hefur ekki sést í áratugi“

„Vertíðin nú hefur allt annað yfirbragð en við höfum séð svo áratugum skiptir. Mjög mikil loðna og afar gott hráefni,“ segir Magnús Jónasson, skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE.

Skipið kom til hafnar í dag með um þúsund tonn af loðnu sem fengust vestur undir Búðagrunni. Þetta er önnur veiðiferð Sighvats eftir að verkfalli lauk og ætla má að hann leggi upp í þá þriðju á morgun, mánudag.

Sighvatur Bjarnason VE á leið til hafnar í dag.

Rífandi gangur er í loðnuveiðum á miðunum og stemningin eftir því til sjós og lands í Vestmannaeyjum.

Maggi á Sighvati hefur skýringar á reiðum höndum á þessari mögnuðu vertíð:

„Þegar trollað er í loðnunni fyrir austan land truflast göngumynstur hennar. Núna var ekkert trollað fyrir austan og loðnan gekk óáreitt sína leið suður með landinu, ósærð og virkilega myndarleg. Hana á einungis að veiða í nót.

Loðnan sem við erum í núna á eftir um það bil viku þar til hún hrygnir. Mér finnst hins vegar líklegt að við sjáum líka loðnugöngu að vestan og þar með gæti teygst á vertíðinni.

Svo er ég á því að meiri loðna sé í sjónum en Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir. Það er útilokað að hægt sé að mæla þetta af nákvæmni á svo stóru hafsvæði.  Bændur fara í göngur og smala fé á fjalli. Alltaf verður eitthvað eftir sem eðlilegt er. Ég gæti nú trúað að eitthvað verði út undan líka þegar fiskur er mældur í sjónum. Vísindin eru varla óskeikul að þessu leyti.

Ástandið er í það minnsta betra en við höfum orðið vitni að í fjölda ára og fróðlegt að velta fyrir sér skýringu á því. Mín kenning er sem sagt sú að loðnan hafi í vetur einfaldlega fengið frið til að hegða sér eins og henni er eðlislægt.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.