Góð sýning í Brüssel

Við erum afar ánægð, margir gestir og básinn okkar vel sóttur,“ segir Björn Matthíasson, rekstrarstjóri About fish, um alþjóðlegu sjávarútvegssýninguna í Brüssel sem lýkur í dag.

„Síðasta sýning í Brüssel var í skugga hryðjuverkaárásarinnar á flugvellinum í borginni og var illa sótt af þeirri ástæðu. Sýningin nú er hins vegar fjölsótt og hefur tekist vel í alla staði.“

Þetta er risasamkoma með um 1.800 sýnendur frá 79 ríkjum, haldin í 24. sinn. Hún hófst á þriðjudaginn og henni lýkur síðdegis í dag, fimmtudag.

Fulltrúar allra About fish, sölu- og markaðsfélaga Vinnslustöðvarinnar, voru á sýningunni til að hitta viðskiptavini og plægja akur vegna nýrra viðskipta. Björn er rekstrarstjóri About fish.

„Sýningin er auðvitað mikilvægt tækifæri fyrir okkur í About fish til að hittast og bera saman bækur okkar. Við miðum við að koma saman tvisvar á ári, allur hópurinn.

Í öðru lagi hittum við hér flesta núverandi viðskiptavini okkar víðs vegar um álfur og það skiptir máli fyrir þá að við séum til staðar og fyrir okkur að rækta samböndin.

Í þriðja lagi kynnumst við alltaf nýju fólki og eygjum nýja möguleika til viðskipta. Þegar Rússar settu á viðskiptabann um árið var sýningin í Brüssel til dæmis upplagður vettvangur til að skyggnast um eftir nýjum mörkuðum fyrir makríl.

Við fengum margt fólk í básinn okkar og nýtt kynningarmyndband, sem Sighvatur Jónsson setti saman í aðdraganda sýningarinnar, gerði sig vel. Þar og í annarri kynningu VSV hér er því haldið vel á lofti sem við erum að gera í Eyjum, einkum beinum við sjónum manna að nýja uppsjávarfrystihúsinu.

Í kynningarmyndbandinu eru mörg „skot“ úr uppsjávarhúsinu og þau gripu auga gesta á gangi um svæðið. Þeir stöldruðu við og úr var oft frekara spjall. Myndbandið vakti því eftirtekt, eins og því var auðvitað ætlað að gera.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.