Áburði dreift í Eldfellshlíðum

Hópur fólks dreifði áburði í hlíðum Eldfells í gær, á uppstigningardegi, undir stjórn Guðmundu Bjarnadóttur, fiskverkanda í Fiskvinnslu VE og varastjórnarmanns Vinnslustöðvarinnar. Átakið á rætur að rekja til sjötugsafmælis VSV.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar ákvað í tilefni sjötugsafmælis fyrirtækisins að veita tíu milljónir króna í uppgræðslu við Eldfell á þremur til fjórum árum í samvinnu við Vestmannaeyjabæ. Verkefnið hófst í fyrra og í gær voru um 25 manns í Eldfellshlíðum að dreifa áburði. Guðmunda segir að í hópnum hafi meðal annars verið krakkar og foreldrar úr einum flokka ÍBV.

Mynd: Addi í London.

Svartaþoka var svo menn sáu vart út úr augum en það tókst að dreifa því sem dreifa átti.

Engar ljósmyndir eru til af vettvangi því skyggnið var svo naumt skammtað að engum datt einu sinni í hug að en lyfta farsíma eða myndavél til að skrásetja atburðinn í grámunni.

Önnur dreifingarrispa er áformuð í júlímánuði og svo fleiri næsta sumar.

Magnús B. Jónsson, Eyjamaður og fyrrverandi skólastjóri Bændaskólans að Hvanneyri, var ráðgjafi Vinnslustöðvarinnar á sínum tíma við að útfæra hugmyndina að verkefninu í grófum dráttum. Í framhaldinu var myndað aðgerðateymi skipað fólki frá Landbúnaðarháskóla Íslands, Landgræðslunni, Arkitektastofunni Landmótun, Vinnslustöðinni og Vestmannaeyjabæ.

„Við sem tókum þátt í að búa verkefnið til og ýta því úr vör eigum það sameiginlegt að vera lúpínufælið fólk,“ segir Magnús B.

„Uppgræðslan miðar að því að styrkja gróðurþekjuna og koma í veg fyrir jarðvegsfok. Svo er alveg nauðsynlegt að ráðast gegn lúpínunni sem breiðir ört úr sér um gamla hraunið sem rann fyrir landnám.“

Lúpínunni hefur trúlega verið sáð sums staðar á hrauninu en eftir það sáir hún sér sjálf af miklum krafti.

Lúpína er dæmi um ágenga, erlenda plöntu sem numið hefur hér land, dreifir sér um stór svæði og þjarmar að lággróðri með afleiðingum sem jafnast á við eitur í beinum fólks sem vill halda í hefðbundinn og venjulegan gróður í umhverfi sínu, hvað þá þeirra „lúpínufælnu“.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.