Kap VE á áfangastað eftir siglingu í 74 daga!

Kap VE-41 (áður Gullberg VE) kom til Busan í Suður-Kóreu á miðnætti í nótt eftir nær tveggja og hálfs mánaðar siglingu frá Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin seldi skipið til Rússlands.

Kap verður gerð út frá Vladivostok í Rússlandi til uppsjávarveiða í Othotskhafi úti fyrir Kampsjatka. Nýir eigendur byrja hins vegar á því að taka skipið í slipp í Suður-Kóreu og þangað er Kap nú komin.

Skipinu var siglt frá Vestmannaeyjum 12. apríl og Guðni Ingvar Guðnason hefur fylgst með ferðum þess allan tímann á marinetraffic.com.

KAP VE komin í mark í Suður-Kóreu.

Kap fór frá Eyjum til Kanaríeyja, þaðan áfram til Cape Town í Suður-Afríku, Singapúr og í nótt var áfangastaðnum náð, Busan í Suður-Afríku eftir siglingu í 74 daga!

Stytta hefði mátt ferðina um tvær til þrjár vikur með því að fara um Súesskurð í stað þess að sigla suður fyrir Góðrarvonahöfða. Rússnesku útgerðarmennirnir gáfu þá skýringu í Eyjum að það væri svo dýrt að fara um Súesskurðinn að þeir vildu frekar fara lengri leið og spara þannig fjármuni.

Gert er ráð fyrir hálfs árs samfelldu úthaldi skipsins á veiðum við Kampstjatka og að landað sé í verksmiðjuskip eða í höfnum.

  •  Að því sögðu er Kap þar með úr sögu Vinnslustöðvarinnar með þökkum fyrir hið liðna.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.