Útkall í áburðardreifingu í Eldfellshlíðum!
Kallað er eftir sjálfboðaliðum til áburðardreifingar í hlíðum Eldfells kl. 17 á mánudaginn kemur, 10. júlí. Verkefnið hófst 2016 og á rætur að rekja til stjórnarsamþykktar í Vinnslustöðinni.
„Stjórnin ákvað í tilefni sjötugsafmælis VSV að veita tíu milljónir króna í uppgræðslu við Eldfell á þremur til fjórum árum í samvinnu við Vestmannaeyjabæ. Við byrjuðum í fyrra, dreifðum aftur á uppstigningardeginum í ár og ætlum af stað í þriðja sinn núna 10. júlí,“
segir Guðmunda Bjarnadóttir, fiskverkandi í Fiskvinnslu VE og varastjórnarmaður Vinnslustöðvarinnar. Hún stýrir verkefninu af hálfu VSV.
Áburðardreifing 2016. Myndir: Addi í London.
„Við vorum 25 manns að dreifa áburði í þoku og sudda í vor. Nú er hásumar og útlit fyrir bjartviðri. Ég geri því ráð fyrir að fleiri sýni því áhuga að leggja góðu málefni lið og reyni ögn á sig í heilsubótarskyni í leiðinni!
Skeljungur kemur til skjalanna og gefur allan áburð til dreifingar á mánudaginn, sem við þökkum auðvitað kærlega fyrir. Þar með er Skeljungur orðinn beinn þátttakandi í þessu samstarfsverkefni VSV og Vestmannaeyjabæjar.“
Sagan öll í uppgræðslumálum í Eldfelli í ár hefur samt ekki verið sögð því 28. og 29. júlí stendur til að alþjóðlegur hópur skáta, allt að 30 manns, sái melgresi í hlíðum Eldfells.
Fyrirspurn barst um mögulegt samfélagsverkefni í Eyjum sem henta myndi skátunum og hugmynd kviknaði um að fela þeim að bæta melgresisþætti við uppgræðslusögu Eldfells.
Það gengur eftir. Grænir fingur skátanna munu stuðla að því að græða upp landið í sumar og uppgræðsluverkefnið er þannig á góðri leið með að verða alþjóðlegt!