Vinnslustöðin í nr. 32 í röð 868 framúrskarandi fyrirtækja
Vinnslustöðin er í 32. sæti á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki á Íslandi árið 2017. Á listanum eru alls 868 fyrirtæki.
Morgunblaðið birti lista yfir öll framúrskarandi fyrirtæki landsins í sérblaði í dag. Þeim er skipt í þrjá flokka eftir stærð: stór fyrirtæki (eignir yfir 1.000 milljónum króna), meðalstór fyrirtæki (eignir 200-1.000 milljónir króna) og lítil fyrirtæki (eignir 90-200 milljónir króna).
Samherji hf. trónir efstur á lista stóru fyrirtækjanna, Eignarhaldsfélagið Randver ehf. á lista meðalstórra fyrirtækja (félag um eignarhlut Jóhanns Páls Valdimarssonar í bókaútgáfunni Forlaginu) og fasteignasalan Eignamiðlunin ehf. á lista lítilla fyrirtækja.
N1 og Hampiðjan fengu sérstaka viðurkenningu þegar fyrirtækjalisti Creditinfo var kynnur í Eldborg, N1 fyrir „framúrskarandi samfélagslega ábyrgð“ og Hampiðjan fyrir að vera „framúrskarandi nýsköpunarfyrirtæki ársins.“
Þegar öllum 686 fyrirtækjum í stærðarflokkunum þremur er raðað upp í lista eru eftirtalin félög (öll stór) í tíu efstu sætum:
- Samherji hf.
- Félagsbústaðir hf.
- Icelandair Group hf.
- Marel hf.
- Icelandair ehf.
- Össur hf.
- Síldarvinnslan hf.
- Reginn hf.
- EIK fasteignafélag hf.
- Hagar hf.
Ísfélag Vestmannaeyja hf. er í 23. sæti og Vinnslustöðin hf. í 32. sæti.
Alls eru 16 fyrirtæki í Vestmannaeyjum á heildarlistanum, þriðja efsta Eyjafyrirtækið er útgerðarfélagið Ós ehf. í 74. sæti.
Nálaraugun sem íslensk fyrirtæki þurfa að smeygja sér í gegnum til að fá sæmdarheitið framúrskarandi hjá Creditinfo eru nokkur tiltekin og krefjandi, enda einungis 2,2% allra þeirra á landinu sem komast á úrvalslistann:
- Ársreikningi skilað á réttum tíma.
- Lánshæfisflokkur er 1-3.
- Rekstrarhagnaður (EBIT) hefur verið jákvæður þrjú ár í röð.
- Ársniðurstaða hefur verið jákvæð þrjú ár í röð.
- Eiginfjárhlutfall 20% eða meira þrjú rekstrarár í röð.
- Framkvæmdastjóri skráður í hlutafélagaskrá.
- Fyrirtækið virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
- Eignir að minnsta kosti 90 milljónir króna 2016 og 80 milljónir króna 2015 og 2014.
Lykiltölur sjávarútvegsfyrirtækja. Birt í sérriti Morgunblaðsins um framúrskarandi fyrirtæki 2017.