Loðnustemning í leikskólanum!

Sá mæti fiskur loðna á hug Eyjamanna um þessar mundir sem eðlilegt er nú þegar vertíðin er á fínu skriði. Loðnustemningin náði meira að segja inn í leikskólann Kirkjugerði fyrir helgi þegar Tinna Karen Benonýsdóttir á Klettsvíkurdeild mætti þangað með nokkra fiska. Börnin stúderuðu afurð sjávarins af miklum áhuga.

Benoný Þórisson, framleiðslustjóri hjá Vinnslustöðinni, sá dóttur sinni fyrir loðnu til að fara með í leikskólann. Börnin veltu fyrir sér fiskunum, spreyttu sig á að greina kvenkyns og karlkyns loðnu og kreistu hrogn úr hrygnunum.

Ef að líkum lætur eiga einhverjir úr hópnum eftir að starfa við veiðar eða vinnslu loðnu í framtíðinni. Því er ekki eftir neinu að bíða með að komast í beina snertingu við þennan mikilvæga þátt í undirstöðu atvinnulífs í heimabyggðinni!

Tinna Karen sýnir félögum sínum í Kirkjugerði gljáandi fína loðnuna. 

Í uppsjávarvinnslu VSV er nú verið að frysta hrygnu af miklum móð, í dag er það afli úr Ísleifi VE. Þetta er þriðja löndun Ísleifs á vertíðinni en Kap VE hefur landað tvisvar.

Loðnan er átulítil, falleg og fyrirtaks hráefni, segir framleiðslustjórinn.

Hér eru ekki skurðlæknar að störfum heldur Benoný Þórisson framleiðslustjóri og Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri að bera saman bækur sínar í uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar, á fyrsta degi loðnufrystingar í ár!

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.