„Hrognin eru að koma, gerið kerin klár“

Bubbi söng um loðnuvertíðarstemninguna á Eskifirði á Ísbjarnarblúsplötunni 1980. Nákvæmlega þetta og miklu meira til fæst áhöfnin á Kap VE við í dag. Hún er að gera klárt fyrir hrognin.

„Vertíðin gengur ljómandi vel það sem af er, við höfum farið í fjóra túra og komið með 700-800 tonn að landi í hvert sinn. Stoppað stutt við á miðunum. Nú eru hrognin næst á dagskrá. Verið er að þrífa lestarnar og við leggjum úr höfn í kvöld eða á morgun,“ segir Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap, staddur í Vestmannaeyjahöfn.

Jón Atli og áhöfn hans á bolludaginn 2018!

„Skipin náðu afla strax eftir að brælu linnti og eru flest á útleið aftur. Veðurspáin er góð svo langt sem séð verður, sem er mjög mikilvægt.

Nú þarf að finna loðnu með nægjanlegum hrognaþroska sem jafnan er mestur í torfum fremst í göngunni. Það er samt ekki algilt. 

Eitt er víst að loðnuveiðar eru aldrei eins frá ári til árs og spennan hjá fólkinu við veiðar og vinnslu í landi gerir þennan tíma svo skemmtilegan.

Loðnan er mjög góð og hátt hlutfall hrygnu í aflanum. Vel gengur að heilfrysta fyrir Japansmarkað en nú er komið að hrognatökunni, verðmætasta hluta veiðanna.

Mér finnst loðnan veiðast heldur dýpra fyrir landi nú en til dæmis í fyrra og hún er mjög víða. Það er enn loðna í Meðallandsbugtinni, hún er úti fyrir Reykjanesi og fyrir norðan land líka.

Mun meiri rannsóknir skortir til að átta sig á hegðun loðnunnar. Svo þarf þorskurinn sitt og hvalirnir éta óhemju líka. Við erum í samkeppni við hvalina!

Ekki ætla ég að dæma um hvort loðnukvótinn er við hæfi núna eða óþarflega varlega metinn. En ef miklu meira er af loðnu í kringum okkur en mælingar gefa til kynna er dýrkeypt fyrir þjóðina og þjóðarbúið að auka ekki við kvótann. Þá fara mikil verðmæti í súginn fyrir lítið.“

  • Meðfylgjandi myndir voru teknar um borð í Kap VE í Vestmannaeyjahöfn síðdegis 12. febrúar, áður en skipið lagði upp í fyrstu veiðiferð loðnuvertíðar í ár. Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, og Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, hittu áhöfnina að máli og köstuðu kveðju á mannskapinn.
  • Sindri fór yfir ýmis praktísk mál, öryggismál og fleira. Svo var rætt góða stund um stöðu og horfur á loðnumiðunum og útlitið á mörkuðum fyrir loðnu og loðnuafurðir.
  • Þeirri spurningu var meðal annars varpað fram hve lengi íslensk stjórnvöld ætluðu að hanga á viðskiptabanni gagnvart Rússlandi, pólítískri aðgerð sem fyrst og fremst stórskaðaði Íslendinga og íslenskt þjóðarbú. Sú spurning lifir enn án svars. 
  • Kokkurinn sá til þess að gott var með kaffinu af tvöföldu tilefni, annars vegar til að halda upp á upphaf loðnuveiða og hins vegar til að fagna bolludegi. Álitlegar og bragðgóðar voru til dæmis bollurnar með fagurbleika kreminu.
  • Þeir sem vildu halda sig frá sætindum sneru sér að næsta borði. Þar var fjölbreytt úrval ávaxta. Þarna var fyrir öllu séð.

Sindri Viðarsson skrafar við áhöfnina á Kap. Jón Atli skipstjóri er miðjumaður þeirra þriggja sem næst sitja.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.