Breki VE til heimahafnar á sunnudaginn

„Við erum vestur af Portúgal og siglum upp með Írlandsströnd áður en kúrsinn verður settur beint á Eyjar. Nú eru einungis um 1.400 sjómílur eftir en liðlega 10.000 mílur að baki,“ sagði Bergur Guðnason, stýrirmaður á Breka VE, á vaktinni í gærkvöld, 30. apríl.

Gert er ráð fyrir að skipið komi til heimahafnar fyrir hádegi á sunnudaginn kemur, 6. maí. Fólk er síðan velkomið um borð til kl. 16 til að skoða Breka og fagna komu hans.

Formleg nafngiftarafhöfn verður svo í Vestmannaeyjahöfn föstudaginn 1. júní og þá verður jafnframt nýja frystigeymslan á Eiði opin almenningi.

Stoltir Púlarar í áhöfninni

Páll Pálsson ÍS kemur til sinnar heimahafnar um svipað leyti og Breki. Togararnir fylgdust að frá Kína til Möltu en þá skildu leiðir og í gærkvöld var Páll um 200 mílum á undan Breka á siglingunni til Íslands.

„Vestfirðingarnir stoppuðu stutt á Möltu en við vorum þar í einn sólarhring til að taka olíu og vistir, fórum á veitingahús og horfðum svo á Liverpool taka Roma í gegn í Meistaradeild Evrópu. Það var dásamleg stund!“ sagði Bergur stýrimaður, sjálfur gegnheill Púlari. Þeir eru fleiri slíkir í áhöfninni.

„Nú er að bíða eftir miðvikudeginum og seinni leiknum í Ítalíu. Það verður ekki leiðinlegt að sjá Liverpool dusta Ítalina á heimavelli þeirra. 

Ferðin gengur annars eins og í sögu. Það var lítilsháttar kaldi og undiralda í gær en skipið fór mjög vel með okkur.

Nú erum við komnir í mun kaldara og viðkunnanlegra loftslag en í Asíu. Kæligræjurnar hafa verið teknar niður. Hitinn í vistarverum er eins og við viljum hafa hann og nú er loksins hægt að sofa með sængur yfir sér!

Það var á allan hátt gott að komast á Miðjarðarhafið og hitta fyrir á Möltu evrópskt viðmót og umgengnisvenjur sem við þekktum fyrir. Gott verður að koma heim.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.