Afkoma VSV 2022 sú besta í sögunni

en allur er varinn góður í fjárfestingum

Afkoma Vinnslustöðvarinnar á árinu 2022 var sú besta sem um getur í sögu fyrirtækisins þrátt fyrir að loðnuvertíðin hafi ekki gengið eins vel og menn væntu, aðallega vegna óhagstæðs tíðarfars. Nær allar einingar VSV-samstæðunnar voru reknar með hagnaði.

Þetta kom fram á ársfundi Vinnslustöðvarinnar í gær, 30. mars.

  • Vinnslustöðin gerir upp í evrum. Velta samstæðu hennar nam 193 milljónum evra, jafnvirði 27,6 milljarða króna á árinu 2022.
  • Hagnaður VSV-samstæðunnar nam 18,7 milljónum evra, jafnvirði 2,7 milljarða króna.

Árið 2023 fór vel af stað í Vinnslustöðinni. Nýafstaðin loðnuvertíð var ein sú besta frá upphafi ef litið er til veðurfars, veiða og framleiðslu. Sala mjöls og lýsis gengur vel og sala frystrar loðnu sömuleiðis.

Hins vegar eru blikur á lofti varðandi sölu og afurðaverð loðnuhrogna. Afleiðingar tveggja loðnuleysisára, þegar að sjálfsögðu ekkert var framleitt, eru þær að markaðir fyrir loðnuhrogn hafa skroppið verulega saman. Það mun taka tíma að endurheimta þá. Af sjálfu leiðir að sala loðnuhrognaframleiðslu ársins mun taka lengri tíma en áður hefur þekkst.

Rafknúin skip á teikniborði

Orkumál og orkuskipti komu mjög við sögu á ársfundinum. Vinnslustöðin lætur nú hanna fyrir sig ný skip til að leysa af hólmi Kap og Drangavík til veiða í landhelginni. Við frumhönnun hefur komið á daginn að nýju skipin gætu stundað netaveiðar í dagróðrum við suðurströndina og við Eyjar fyrir rafmagni að hluta. Skipin kæmu til hafnar síðdegis eða á kvöldin og geymar yrðu hlaðnir að nóttu fyrir næsta túr að morgni.

Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður sagði um málið í skýrslu stjórnar:

Til að draumur um rafmagnsskip í flota Vinnslustöðvarinnar verði að veruleika þarf að auka flutningsgetu raforku til Vestmannaeyja og tryggja öruggt orkuframboð hér. Á því er sannarlega brýn þörf líkt og bitur reynsla nýlega sannar.

Bilaður strengur milli meginlandsins og Eyja sýndi hve ótryggt ástandið er. Ef sá atburður hefði átt sér stað á loðnuvertíð hefði vinnslan hér verið í algjöru uppnámi.

Við hjá Vinnslustöðinni teljum að bæta þurfi við tveimur raforkustrengjum til Eyja þannig að þeir verði alls þrír. Jafnframt þyrfti að efla spennuvirkin við báða enda, á meginlandinu og í Vestmannaeyjum, svo vel fari. Ráðamenn Landsnets, Landsvirkjunar og HS Veitna hafa einnig lýst yfir að þetta sé bæði skynsamlegt og nauðsynlegt þannig að sjónarmið okkar fara algjörlega saman í þessum efnum.

Nýju botnfiskvinnsluhúsi frestað

Stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar greindi ársfundarfólki frá því að stjórn félagsins hefði ákveðið að fresta um sinn boðuðum áformum um nýtt átta þúsund fermetra botnfiskvinnsluhús. Það væri gert í varúðarskyni vegna alþjóðlegs óvissuástands í efnahagsmálum með tilheyrandi áhrifum á starfsemi fjármálastofnana erlendis og hérlendis.

Viljayfirlýsing um kaup á Ós ehf. og fiskvinnslunni Leo Seafood ehf. var undirrituð seint á árinu 2022 og kaupsamningur í upphafi ársins. Samningurinn var með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Arður helmingaður frá í fyrra

Ársfundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti að greiða hluthöfum þrjár milljónir evra í arð, jafnvirði um 445 milljóna króna. Þetta er helmingi minni arður en hluthafar fengu greiddan í fyrra. Í samþykkt ársfundarins nú er kveðið á um heimild til handa stjórn félagsins að minnka arðinn eða hætta alveg við að greiða hann út í haust ef horfur í rekstri og starfsumhverfi þykja svo óvissar eða dökkar að arðgreiðslur séu ekki réttlætanlegar.

Stjórn Vinnslustöðvarinnar

Í stjórn Vinnslustöðvarinnar eru Einar Þór Sverrisson, Guðmundur Örn Gunnarsson, Rut Haraldsdóttir, Sigurhanna Friðþórsdóttir og Sigurjón Rúnar Rafnsson. Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson, Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir og Herdís Ásu Sæmundardóttir.

Öll voru þau kjörin til stjórnarsetu á ársfundinum 2022 en sú breyting varð á nú að Sigurhanna var kjörin í aðalstjórn en Guðmunda Áslaug í varastjórn. Guðmunda var áður í aðalstjórn en Sigurhanna í varastjórn.

 

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.