BLÍTT lætur veröld vertíðar + togararall

„Veður og tíðarfar í janúar og febrúar hefur verið sérstaklega hagstætt og vel aflast. Í heildina tekið er jafn og góður gangur í vertíðinni til sjós og lands, litlar sveiflur líkt og við höfum séð oft áður,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnvinnslu Vinnslustöðvarinnar.

Í vikunni sem nú er senn á enda tókst að pakka öllum saltfiski sem að var stefnt og jafnframt var unnið af krafti við flatningu og söltun. Nóg er til að fiski til vinnslu næstu daga þrátt fyrir yfirvofandi brælu. Bárður SH  hefur landað daglega og Kap II og Brynjólfur mjög þétt. Breki og Drangavík hafa sömuleiðis aflað vel.

Breki rallar í mars

Togarinn Breki fer eftir helgi í togararall Hafrannsóknastofnunar, árlega stofnmælingu botnfiska á Íslandsmiðum. Niðurstöðurnar eru mikilvægar við mat á stofnstærð botnfiska og árlega aflaráðgjöf. Togararallið hófst árið 1985 og eru teknar hátt í 600 stöðvar hringinn í kringum landið.

Ríkiskaup, fyrir hönd Hafrannsóknastofnunar, óska eftir tilboðum í leigu á togurum með áhöfnum til verkefnisins til að stunda togveiðar í marsmánuði í tilraunaskyni.

Breki VE tekur nú þátt í togararallinu í fyrsta sinn og sérfræðingar frá Hafrannsóknastofnun verða um borð allan tímann. Sverrir Haraldsson segir að það henti Vinnslustöðinni ágætlega að leigja Hafrannsóknastofnun skipið í mars enda önnur verkefni fyrirferðarmikil hjá fyrirtækinu á sama tíma.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.