Enginn COVID-smitaður í áhöfn Kap II

Áhöfnin á Kap II VE er laus úr sóttkví í Grundarfjarðarhöfn, löndun er hafin þar úr skipinu og það heldur síðan til veiða á ný á þriðjudaginn kemur, eftir verslunarmannahelgarfrí áhafnarinnar.

Grunur um COVID-smit um borð í Kap II reyndist ekki á rökum reistur, sem betur fer.

Tekin voru sýni úr skipverjum sem höfðu veikindaeinkenni og niðurstöður skimunar eru ótvíræðar. Útilokað er að COVID-smit skýri veikindaeinkenni nokkurra skipverja. Ætla má að einhvers konar umgangspest hafi stungið sér þarna niður. Flest einkennin voru væg, enginn veiktist alvarlega.

Skipstjórinn á Kap II tilkynnti útgerðinni á sunnudagskvöldið að vart hefði orðið flensueinkenna um borð. Í ljósi veirufaraldursins var ákveðið að virkja þegar í stað tilheyrandi viðbúnaðaráætlun Vinnslustöðvarinnar og heilbrigðisyfirvalda, segir Sverrir Haraldsson sviðstjóri botnfisksviðs VSV:

„Við vorum í sambandi við vaktstöð Landhelgisgæslunnar og lækni sem leiðbeindu okkur um hvað gera skyldi og hvernig. Skipið var að veiðum úti fyrir Vestfjörðum og ákveðið var að sigla því til Grundarfjarðar, þjónustuhafnar þess. Þangað var tólf til fjórtán tíma sigling og þegar skipið kom til hafnar að morgni þriðjudags voru strax tekin sýni um borð og þau send til rannsóknar með flýtimeðferð í Reykjavík.

Áhöfnin var í sóttkví þar til í morgun og ekki var landað úr skipinu fyrr en neikvæðar niðurstöður skimunar lágu fyrir.

Aldrei kom annað til greina en að tryggja öryggi áhafnarinnar og láta hana njóta vafans þegar fór að bera á veikindum sem gátu bent til COVID. Hálf veiðiferð tapaðist með tilheyrandi kostnaði og tekjutapi fyrirtækis og áhafnar en við horfum að sjálfsögðu ekki í það. Heilsa og öryggi starfsfólksins skiptir öllu máli.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.