Eyjaættaður saltfiskur vakti

lukku á þorskfiskahátíð í Portúgal

 

Ætla má að á þriðja hundrað þúsund gesta hafi á dögunum sótt sérstaka hátíð kennda við þorsk í borginni Ilhavo í Portúgal. Vinnslustöðin var eini íslenski styrktaraðili verkefnisins og salfiskfyrirtæki hennar þar ytra, Grupeixe, kynnti framleiðsluvörur sínar á vettvangi.

Gestir kunnu vel að meta íslenska saltfiskinn enda í hávegum hafður og til að mynda víða á borðum þegar fólk gerir sér dagamun á stórhátíðum og við sérstök tækifæri.

Þorskfiskahátíðin stóð yfir í fjóra daga. Borgaryfirvöld settu hana á laggir til að gefa góðgerðasamtökum og öðrum óhagnaðardrifnum félögum færi á að kynna sig og starfsemi sína og safna um leið fjármunum til góðra málefna. Hver samtök fá svo einhver fyrirtæki í lið með sér til að gefa gestum fisk að borða.

Vinnslustöðin & Grupeixe tóku að sér að bera saltfisk á borð í tveimur sýningarbásum. Um sex hundruð manns þáðu þar saltfiskrétti á hverjum degi. Margir létu fögur orð falla um veitingarnar og þjónustuna að máltíð lokinni. Kynningin heppnaðist því eins og best verður á kosið.

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.