Góðum aflabrögðum fagnað með kökum og kruðeríi

Áhafnir þriggja skipa Vinnslustöðvarinnar fengu um helgina gott með kaffinu um í tilefni af góðum aflabrögðum frá áramótum. Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, mætti um borð með kökur, kruðerí og þakkir frá fyrirtækinu.

Áður hefur hér á þessum vettvangi verið greint frá fádæma góðum afla Breka VE í marsmánuði. Hann er í hópi aflahæstu togara landsins og aflasamsetningin er mun fjölbreyttari en hjá viðmiðunarskipunum.

Önnur botnfiskskip Vinnslustöðvarinnar hafa líka aflað vel á vertíðinni.

  • Brynjólfur VE hefur fært yfir 1000 tonn að landi frá áramótum. Hann hóf vertíðina á fiskitrolli en skipti yfir á net um miðjan febrúar.
  • Kap II VE hefur aflað yfir 850 tonn frá því í lok janúar. Skipið var frá veiðum vegna mikilla endurbóta í desember og fyrstu vikum nýs árs en hóf veiðar á þorskanetum í lok janúar.
  • Drangavík VE er komin með 1300 tonn frá því í janúar; þorsk, ýsu, ufsa, skarkola og fleiri tegundir.

„Áhafnir á skipum félagsins hafa skilað miklum verðmætum á land á fyrsta fjórðungi ársins. Full ástæða var til að halda upp á það með þeim um helgina með kökum og kátínu!“ segir Sverrir Haraldsson.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.