Gleðilega hátíð!

Vinnslustöðin óskar starfsfólki sínu, Vestmannaeyingum og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar og friðar á nýju ári með þökk fyrir hið liðna.

Bjallan á VSV-húsinu og kertið við Fiskimjölsverksmiðju VSV eru sýnilegir boðberar hins sanna jólaanda og lýsa upp tilveruna í svartasta skammdeginu í bænum okkar. Hvoru tveggja á sér sögu og er liður í aðventu- og jólahefð Vestmannaeyja.

Reykháfurinn var reistur við bræðsluna sumarið 1925, mikið mannvirki og stöndugt. Hann hefur fyrir löngu lokið upphaflegu hlutverki sínu en er sterkur þáttur í bæjarmyndinni á hafnarsvæðinu og hefur nú þann göfuga tilgang að vera jólakerti á þessum tíma árs!

Haraldur Gíslason hjá Vinnslustöðinni segir að starfsmönnum í bræðslunni hafi dottið í hug í aðdraganda jóla gosárið 1973 að búa til járngrindur og breyta reykháfnum í lýsandi jólakerti til að fá meiri birtu í samfélag sem myrkur og aska grúfðu yfir eftir hamfarirnar. Uppátækið vakti mikla lukku og jók bjartsýni í bænum. Mörgum af eldri kynslóðum sérstaklega þykir sem jólin séu gengin í garð þegar kveikt er á kertinu við fiskimjölsverksmiðjuna.

Söguleg er líka hin lýsandi jólabjalla sem blasir við á þaki VSV og hefur ekki verið þar í mörg ár. Sú var á árum áður á húsi Fiskiðjunnar og vekur minningar hjá mörgum, þar á meðal Lilju Björgu Arngrímsdóttur hjá Vinnslustöðinni:

„Ég man vel eftir bjöllunni á húsnæði Fiskiðjunnar þegar ég var krakki. Þar störfuðu báðir mínir foreldrar, pabbi sem rafvirki og afi minn var reyndar vélvirki þar líka. Mamma þreif verbúðirnar. Margar ferðir ívoru farnar bæinn í desember til að sjá jólabjölluna. Virkilega hátíðlegt og skemmtilegt að sjá hana komna á ný á húsnæði VSV.“

Margir erlendir starfsmenn í Eyjum um hátíðar

Óvenjumargir starfsmenn VSV af erlendum uppruna verja jólum og áramótum í Vestmannaeyjum í þetta sinn. Skýringin á því er nærtæk: kórónuveirufaraldurinn með tilheyrandi truflunum í samskiptum og samgöngum. Megi hátíðin verða þeim góð og gæfurík fjarri svo mörgum ættmennum sínum og vinum.

Svo er  hins vegar fjarskipta- og tölvutækninni fyrir að þakka að heimurinn skeppur saman þegar svo ber undir. Fólk getur haldið sambandi á Vefnum og notið samverustunda og fjölskyldufunda á þann hátt. Þetta nefndu viðmælendur Fjölmenningar í Vestmannaeyjum í skemmtilegum viðtölum núna í desember.

Í hópi viðmælenda voru tveir starfsmenn Vinnslustöðvarinnar: Joao Miguel Tavares Do Carmo frá Portúgal og Daria Monika Matenko frá Póllandi. Hann kom til Íslands fyrir tæplega tveimur árum en hún fyrir fjórum árum. Bæði fagna jólum með siðum og í þeim anda sem þau ólust upp við í heimaríkjum sínum.

Hann borðar soðinn, saltaðan þorsk með kartöflum og osta og kökur, á aðfangadagskvöld en hinn hápunktur jólahaldsins er messa og hádegismatur á jóladag.

Hún er með tólf rétta matseðil á aðfangadagskvöld og þarf að hafa talsvert fyrir því að útvega sumt góðgætið á hátíðarborðið. Þarna er að finna fisk, kjöt, kál, baunir, sveppi, rauðrófusúpu, pasta og soðkökur. Við jólaborð Pólverja er einn stóll auður handa „óvænta gestinum“.

Sinn er siður í landi hverju og auðgar mannlífið og menninguna að kynnast mismunandi hátíðarhefðum.

  • Svo skulum við endilega halda því til haga að mun fleiri Portúgalar en margan grunar bera á borð saltfisk frá Vestmannaeyjum um jólin. Sú vara er í hávegum höfð meðal þeirra sem kunna gott að meta skal gera sér dagamun. Algengt er að íslensk fyrirtæki gleðji viðskiptavini og aðra vini á aðventunni með reyktu kjöti, ostum, rauðvíni eða sælgæti. Þegar hins vegar fyrirtæki í Portúgal gera sérlega vel við sína vildarvini færa þau þeim saltfisk frá Vestmannaeyjum. Þá brosa þiggjendur breitt og hlakka enn meira til aðfangadagskvöldsins.

Gleðileg jól.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.