Huginn á leið til Eyja með fyrstu loðnuna, aðalvél Kap ekki komin í lag

Huginn er lagður af stað af miðunum fyrir norðan land með fyrstu loðnuna til Vestmannaeyja. Skipið er væntanlegt til hafnar seint í kvöld eða í nótt með um 1.800 tonn til bræðslu.

Ísleifur er áfram að veiðum norður af Langanesi, kominn með um 1.300 tonn og heldur að líkindum heim á leið í kvöld.

Þá Kap er á heimleið eftir að hafa lagt úr höfn á Akureyri um kvöldmatarleytið í gær úr viðgerðarstoppi í um sólarhring. Skipið var dregið til hafnar nyrðra fyrr í vikunni þegar aðalvél þess bilaði. Vinnslustöðin bjó svo vel að eiga viðeigandi varahluti og því tók tiltölulega skamman tíma að gera við.

Svo kom því miður í ljós að bilunarsögunni var þar með ekki lokið til fulls því Kap hafði ekki siglt lengi frá Akureyri þegar kom á daginn að eitthvað var enn athugavert við aðalvélina. Ákveðið var þá að sigla skipinu beint til Vestmannaeyja og kanna málið betur hér. Við komuna verður landað 800 tonnum af loðnu sem í Kap eru, aðalvélin yfirfarin á ný og siglt á miðin aftur að viðgerð lokinni – þegar líka yfirvofandi brælu linnir.

Helstu tíðindi morgunsins eru engu að síður þau að fyrsta loðna vertíðarinnar er á leið til Eyja. Næstu sólarhringa verður því mikið um að vera í Fiskimjölsverksmiðju VSV!  

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.