Ingigerður vaktar 2,5 tonn af jólasíld og heitir góðum árgangi 2021

Jólahátíð er skammt handan hornsins og henni fylgir ómissandi jólasíld Vinnslustöðvarinnar. Þar á bæ er síldaraðventan þegar gengin í garð, næst kemur jólafastan og loks sjálf jólin.

Mikil spenna ríkir hjá núverandi og fyrrverandi starfsfólki og meðal velunnara Vinnslustöðvarinnar yfirleitt vegna hinnar ómissandi síldar. Snemma í desember hefst svo niðurtalning. Þegar jólasíldarvinir fá föturnar sínar afhentar er ljóminn á andlitsbjórnum þeirra jafnvel skærari en á börnum með jólapakka í fanginu á aðfangadagskvöldi jóla.

Vinnslustöðin er vinmargt fyrirtæki á öllum árstímum en vildarvinahópurinn er aldrei fjölmennari en um þessar mundir þegar vonglaðir sjá fyrir sér síldarfötur í hillingum. 

Spurn eftir jólasíld VSV eykst stöðugt ár frá ári og framleiðslan 2021 slær öll fyrri met. Í fyrra var síld í sjö körum í frumvinnslu en í ár eru körin átta talsins og nær hálfu kari betur, alls 2,5 tonn af bitum!

Síldin liggur í edikspækli fyrstu vikurnar og framleiðsluhópurinn undir dyggri forystu Ingigerðar Helgadóttur, flokksstjóra í uppsjávarvinnslunni, sér um að hræra í körunum á nóttu sem degi, allt að fjórum sinnum á sólarhring. Eini friðurinn sem síldarbitarnir fengu var um árshátíðarhelgina síðla í október. Þá höfðu starfsmenn  nóg með að skemmta sér og ná sér aftur á strik áður en þeir tóku til við að hræra á nýjan leik.

Komið er að að kaflaskiptum í verkunarferlinu, segir Ingigerður jólasíldarverkstjóri:

„Nú blasir við að vigta síldina í fötur með sykurlegi, kryddblöndu, lárviðarlaufi og lauk. Meira færðu ekki að vita enda hvílir leynd yfir uppskriftinni.

Þetta er mikil vinna en jólasíldinni fylgir alltaf stemning. Í fyrra skárum við niður 720 kg af lauk og enn meiri laukskurður bíður okkar í ár.

Við settum síld í um 1.300 fötur í fyrra og sá lager tæmdist fyrir jólin. Þess vegna verða fleiri fötur í ár og fleiri kátir síldarvinir fá væntanlega glaðning í desember.

Framleiðsla jólasíldar var til gamans gerð í upphafi en öllu gamni fylgir nokkur alvara. Nú er þetta löngu hætt að vera grín heldur er vandað mjög til verka að öllu leyti eins og í öðru sem við gerum. Ég get lofað því að árgangurinn 2021 verður góður!“

Sagnfræðirannsóknir leiddu í ljós í fyrra að jólasíld VSV á sér samfellda sögu aftur til jólaföstunnar árið 1998. Þorbergur Aðalsteinsson, þáverandi markaðsstjóri Vinnslustöðvarinnar, átti hugmyndina og hrinti henni í framkvæmd.

Kolbrún Óladóttir þáverandi flokksstjóri í saltfisk- og síldarvinnslu, stjórnaði fyrstu jólasíldarframleiðslunni og eftir það í mörg ár. I

Ingigerður Helgadóttir tók síðan við veldissprotanum og hefur stýrt verkefninu undanfarin ár.

Myndirnar:

  • Ingigerður hrærði vel í síldinni á föstudagskvöldið fyrir árshátíð VSV og staðfesti að allt væri með felldu í framleiðsluferlinu.
  • Neðsta myndin er tekin í fyrra í tilefni af því að jólasíldin '20 var komin í dósir.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.