Innileg fjöldagleði á árshátíð VSV

Það var kominn tími á að gera sér dagamun og menn gerðu það sannarlega á glæsilegri árshátíð Vinnslustöðvarinnar um helgina. Veirufaraldurinn svipti okkur þessum árlega gleðskap í fyrra en nú small allt. Samkoman tókst líka svona ljómandi vel. Gestir og starfsmenn í Höllinni brostu hringinn, skemmtikraftar fóru á kostum og hljómsveitin Made-in sveitin lék við hvurn sinn fingur. 

Um 250 manns sóttu árshátíðina, allt skipulag var með miklum ágætum og framkvæmdin eftir því. Nýir rekstraraðilar Hallarinnar eiga lof skilið fyrir liðlegheit, dugnað og útsjónarsemi til að gera hátíðina sem glæsilegasta.

Einsi kaldi & Co sáu um matinn sem á borð var borinn og þarf ekki að fjölyrða um þann þátt málsins frekar en fyrri daginn. Það er ekkert eðlilegt að þessu fólki takist stöðugt að toppa sjálft sig frá ári til árs í eldhúsinu og við að þjóna til borðs.

Veislustjórarnir settu heldur betur mark sitt á samkomuna og kættu mannskapinn aftur og aftur svo hláturrokur bergmáluðu um salinn. Til stóð að Eva Ruza og Hjálmar Örn gegndu þessum lykilhlutverkum en hún lenti í sóttkví og Helgi Jean hljóp í skarðið á síðustu stundu. Eva hélt samt í spotta og fjarstýrði veislustjórninni þannig að þegar upp var staðið komu öll þrjú að málinu þótt aðeins tveir væru sýnilegir á sviðinu.

Aðgöngumiðar voru númeraðir og voru jafnframt happdrættisvinningar. Þeir hinir heppnu fögnuðu mjög að vonum en einn samt meira en aðrir því sá reif sig úr að ofan og tók við vinningnum nakinn til beltis. Hann hefði fengið gult spjald fyrir tiltækið eftir markaskorun á knattspyrnuvelli en uppskar hins vegar lófatak og húrrahróp á árshátíðarvelli VSV. Þegar upp var staðið reyndist sá sigurreifi alls ekki eiga vinningsmiðann og hinn rétti miðaeigandi hrifsaði vinninginn úr höndunum úr höndum hans þegar hann fór af sviðinu!

Glódís Dúna Óðinsdóttir, 11 ára, kom fram í fyrsta skipti sem söngkona á sviði og heillaði áheyrendur upp úr skónum. Ný söngstjarna sem hreinlega lýsti upp salinn.

Hápunktinum náði árshátíðin þegar sýnd var stuttmynd Hafliða Sigurðarsonar og Elmars Hrafns Óskarssonar um lífið í Vinnslustöðinni. Frábært handrit, framúrskarandi leikur þeirra félaga og aukaleikara. Mynd sem var í alla staði stórskemmtileg og vel gerð.

Síðast en ekki síst skal borið verðskuldað lof á Made-in sveitina, rokkarana sem héldu uppi linnulausi dansfjöri í tvo og hálfan tíma án þess nokkru sinni að taka pásu! Einvalalið tónlistarmanna með Hreim Örn Heimisson í broddi fylkingar. Það átti greinilega ekkert síður við hljómsveitina en alla aðra á vettvangi: Tími var kominn til að sletta úr klaufum.

Árshátíðin 2021 fór að öllu leyti sérlega vel fram og fólk skemmti sér hið besta líkt og til var stofnað. Fólk mætti brosandi, fór brosandi út í nóttina að veisluhöldum loknum og brosti óslitið allt þar á milli.

 

 

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.