Ísleifur VE með fyrstu loðnuna til Vinnslustöðvarinnar

„Við erum með 380 tonn af góðri loðnu sem fékkst austur af Ingólfshöfða. Hrognafyllingin er 14,5% og allt lítur þetta ljómandi vel út. Vonandi verður tíðarfarið á vertíðinni samt hagstæðara en í fyrra,“ sagði Eyjólfur Guðjónsson, skipstjóri á Ísleifi VE, seint í gærkvöld. Skipið var þá á leið til Eyja með fyrstu loðnuna sem uppsjávarhús Vinnslustöðvarinnar tekur við í ár. Það kom til hafnar um eittleytið í nótt.

„Alltaf spennandi tími þegar loðnuvertíð hefst. Ísleifur kominn og Gullbergið lagði úr höfn til veiða í gærkvöld,“ sagði Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarvinnslu VSV, glaðbeittur mjög í morgun.

„Siglingin á miðin tekur um ellefu klukkutíma og svo styttast túrarnir eftir því sem loðnan gengur vestar með suðurströndinni.

Vonandi er þetta upphafið að skínandi vertíð með tíðum „rútuferðum“ til okkar með fisk! Þetta leggst vel í mannskapinn enda skapar loðnan alltaf sérstaka stemningu, bæði veiðar og vinnsla“

 

Sindri Viðarsson var á ferð í morgunskímu dagsins og tók meðfylgjandi myndir af Ísleifi og starfsmönnum uppsjávarvinnslunnar setja sig í upphafsstellingar vertíðarinnar.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.