Jólasíld VSV komin í hátíðarílátin – vaxandi spenna

Jólin nálgast og margrómuð jólasíld Vinnslustöðvarinnar er komin í fötur og bíður þess nú á lager að verða afhent eftirvæntingarfullum viðtakendum á aðventunni. Fyrir fjölda fólk eru engin jól án jólasíldarinnar. Það er alveg á hreinu.

Hópur fólks vann í dag að því hörðum höndum undir þaki uppsjávarvinnslu VSV að ganga frá síldinni í merktum plastfötum. Ilm af góðmetinu lagði um allt húsið og alveg út á bryggjukant.

Benóný Þórisson framleiðslustjóri uppsjávarsviðs:

„Við flökuðum síldina 4. október 2020 og síðan þá hefur hún legið í edikspækli. Ingigerður Helgadóttir, flokksstjóri í uppsjávarvinnslunni, stjórnaði aðgerðum í dag og hefur gert undanfarin ár. Síldarbitum var raðað í dósir í tveimur stærðum með kryddblöndu, sykurlegi og lauk. Starfsmennirnir handskáru 720 kíló af lauk til að setja með síldinni. Þegar upp var staðið hafði verið gengið frá alls um 1.300 síldardósum til jóla. Þetta er eðalfín síld, það máttu bóka.“

  • Hvaða uppskrift styðjist þið við?

„Það varðar þig nú ekkert um, væni minn. Uppskriftin er hernaðarleyndarmál sem innan við fimm manns í fyrirtækinu þekkja. Hún varðveitist í kolli þeirra og berst munnlega milli kynslóðanna en er hvergi skráð af öryggisástæðum."

Lilja Björg Arngrímsdóttir sviðsstjóri mannauðs- og lögfræðisviðs:

„Við byrjum að dreifa síldinni þriðjudaginn 8. desember, fyrst og fremst til starfsmanna VSV. Fyrrverandi starfsmenn með langan feril að baki hjá fyrirtækinu fá líka síld og segjast reyndar sumir hverjir ekki geta hugsað sér jólahátíðina án þessa glaðnings. Svo eru til algjörlega óformleg hollvinasamtök Vinnslustöðvarinnar og liðsmenn þeirra geta nú sem fyrr átt von á að fá síld fyrir jólin.

Strax á haustin byrjum við að tala um jólasíldina í kaffistofunni og hlökkum mikið til. Það fylgir því líka stemning þegar leggur ilm af ediki og lauk um salina. Þannig erum við minnt á jólin og þau koma hvernig svo sem árar og viðrar.“

Þór Vilhjálmsson fyrrverandi starfsmannastjóri og allsherjarreddari:

„Starfsmenn VSV fá síldina sína afhenta á vinnustaðnum en vildarvinir njóta heimsendingarþjónustu. Ég stakk til að mynda upp á því við Binna framkvæmdastjóra hér um árið að hluthafar í fyrirtækinu fengju síld með baráttu- og þakklætiskveðjum í tilefni jóla, þakklætisvott fyrir stuðning og velvild. Hann samþykkti það á stundinni.

Síðan þá hef ég fært hluthöfum síld við útidyr og óskað þeim gleðilegra jóla með handabandi. Nú á veirutímum hneigi ég mig frekar en handheilsa af sóttvarnaástæðum en síldin mun skila sér nú sem fyrr.“

Kolbrún Óladóttir lyftaraekill í löndun og útskipun, áður flokksstjóri í saltfisk- og síldarvinnslu:

„Jólasíld Vinnslustöðvarinnar er meira en tveggja áratuga gamalt fyrirbæri. Þorbergur Aðalsteinsson fékk hugmyndina og framkvæmdi hana, líklega árið 1998 [ÞA var markaðsstjóri VSV frá 1995 til vordaga 1999 og er fyrrverandi leikmaður og þjálfari landsliðs Íslands í handbolta karla]. Ég tók þátt í verkefninu frá upphafi og stjórnaði framleiðslu jólasíldarinnar í mörg ár.“

  • Þá kanntu auðvitað uppskriftina og þarft ekki að liggja á henni gagnvart gestum VSV-vefsins?

„Uppskriftina færðu ekki hjá mér, get ég sagt þér, en ég veit að hún var upphaflega frá Þorbergi komin. Svo breyttum við henni nokkuð.

  • Hvernig þá?

„Við minnkuðum til dæmis sykurinn og prófuðum rósapipar og fleira. Við hlustuðum vel eftir viðbrögðum þeirra sem fengu síldina, breyttum kannski einhverju lítillega á hverju ári en héldu fast við grunngildin og það eru einmitt þau sem gera síldina okkar að því sem hún er.“

Benóný Þórisson tók meðfylgjandi myndir, Á þeirri efstu er stoltur verkstjóri með jólaglaðning, Ingigerður Helgadóttir. 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.