Kap væntanleg með fyrsta farm síldarvertíðar

„Við komum hingað í síldina á Héraðsflóa í gær en köstuðum ekki fyrr en í morgun. Byrjuðum á því að gera veiðarfæri klár og bíða af okkur brælu. Eitthvað fór að skrapast inn hjá okkur í morgun og meira gerist í dag.

Síldin er mjög stór og falleg. Þetta er aðallega norsk-íslensk síld en Íslandssíld blandast með, kannski 10-15% af því sem upp kemur,“ sagði Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE, núna fyrir hádegið (föstudaginn 17. september).

Áhafnir á Kap og Ísleifi VE hjálpast að við að veiða í fyrrnefnda skipið og gert ráð fyrir að það leggi af stað heim til Eyja í kvöld.

Lokið var við að landa úr Hugin VE í gær og skipið lagði úr höfn áleiðis austur í síldina eftir veiðarfæraskipti.

Hér heima er allt að verða klárt í uppsjávarvinnslunni til að taka við fyrsta síldarfarminum sem eitthvað kveður að, segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar:

„Við renndum fyrsta prufuskammti af síld gegnum vélarnar til að búa okkur undir stóra slaginn. Vertíðin leggst vel í mannskapinn.

Veiðarnar gengu ótrúlega vel í fyrra. Fyrstu síldinni var landað um miðjan september og við kláruðum á fyrstu dögum októbermánaðar. Einungis tveggja vikna vertíð þá en ég geri ráð fyrir að í ár verðum við í síldinni langleiðina fram á jólaföstu.“

Vinnslustöðin hefur heimild til að veiða um 12.000 tonn af norsk-íslenskri síld og 8.000-9.000 tonn af Íslandssíld.

  • Myndir tengdar lokum síldarvertíðar 2020:.

Silfur hafsins dregið var úr sjó. Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson, stýrimaður á Ísleifi VE.

Ísleifur  VE á leið til hafnar og Kap VE í höfn til löndunar. Myndir: Sverrir Haraldsson. 

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.