Marhólmar og pólskt fyrirtæki með nýja síldarrétti á markaði í Finnlandi

„Við vinnum norsk-íslenska síld frá Vinnslustöðinni og flytjum í flökum til Póllands þar sem hún er sett á bakka með mismunandi kryddi, sósum, grænmeti og ávöxtum og send þannig áfram til Finnlands, sem hefur um árabil verið mikilvægasti síldarmarkaður okkar, og seld undir vörumerkinu Vestmans.

Þetta er nýr áfangi, árangur vöruþróunarferlis og vinnslu í Vestmannaeyjum. Lykilþátturinn er góð veiðistjórn sem tryggir ferskasta hráefnið. Síðan fer saman vönduð flökun og bitavinnsla hjá VSV annars vegar og vöruþekking Marhólma og sérhæfing við söltun og marineringu á síldinni hins vegar. Slík samvinna við veiðar og vinnslu tryggir bestu vörugæði sem völ er á,“ segir Hilmar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins.

Byrjað var að selja síldarbakkana umræddu fyrr á þessu ári og viðbrögð finnskra neytenda lofa afar góðu. Á hverjum bakka er 180 gramma skammtur, þar af um 90 grömm af síld í flökum eða bitum. Nú þegar hafa sjö tilbrigði síldarbakka séð dagsins ljós í verslunum í Finnlandi en þau verða fleiri, allt eftir viðbrögðum neytenda og árstíðum. Til dæmis munu birtast síldarréttir sérsniðnir að hátíðum jóla eða páska eða með léttara yfirbragði í tilefni sumarkomu.

Finnar vilja síld með litlu ediki og mildu bragði. Þeir hafa gjarnan soðnar kartöflur og brauð með. Kaupendur hafa um margar mismunandi útfærslur síldarréttanna að velja. Þar má til að mynda nefna léttar sósur með sýrðan rjóma sem uppistöðu, kryddjurtir, karrí, piparrót, gúrku, rauðrófu, ferskjur, trönuber, dill eða kóríander. Réttirnir á bökkunum hafa mun styttri „líftíma“ (geymsluþol) en síld í krukkum eða dósum, einungis 30-45 daga. Samstarf við pólska matvælafyrirtækið hentar því vel vegna landfræðilegrar nálægðar við finnska markaðinn.

Sterk hefð er fyrir síld og síldarréttum í matarmenningu Finna, Svía, Norðmanna og Dana. Eyjafyrirtækið Marhólmar hefur langa og farsæla reynslu af því að framleiða og selja norrænum grönnum okkar og frændum síld og síldarafurðir. Ætla mætti að síldarsmekkur Norðurlandabúa væri svipaður eða jafnvel sá hinn sami en svo er nú ekki, segir Hilmar: 

„Það getur verið umtalsverður munur á því hvernig norrænu þjóðirnar vilja hafa síldina sína. Við verðum í raun að hafa sérstaka uppskrift að síldarafurðum handa hverri þeirra!“

  • Vinnslustöðin á meirihluta í Marhólmum á móti stjórnendum og frumkvöðlum fyrirtækisins, Halldóri Þórarinssyni og Hilmari Ásgeirssyni. Marhólmar sérhæfa sig í framleiðslu á síldarréttum, hrognum, masago og fleiri vörum. Fyrirtækið hefur sterka stöðu á Finnlandsmarkaði og er þar með skrifstofu sem Jussi-Pekka Mäntylä veitir forstöðu.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.