Marhólmar fagna tíu ára afmæli

 

„Við Hilmar stofnuðum Marhólma 9. febrúar 2012, skipulögðum starfsemina næstu mánuði, framleiddum masago úr gæðahrognum frá Vinnslustöðinni í fyrsta gáminn í humarsal VSV í desember 2012 og hófum starfsemi í eigin verksmiðju í mars 2013.

Þetta byrjaði með fullvinnslu loðnuhrogna og síðar komu síld og þorskhrogn til sögunnar. Fullvinnsla síldar heyrir sögunni til í bili en við einbeitum okkur að hrognum og seljum á markaði í Bandaríkjunum og Evrópu.“

Frumkvöðlarnir í Marhólmum, Halldór Þórarinsson matvælaverkfræðingur og Hilmar Ásgeirsson iðntæknifræðingur á matvælasviði, gáfu sér tíma til að fagna tíu ára afmæli fyrirtækisins með starfsfólki sínu og þakka því í leiðinni ómetanlegan þátt í starfseminni. Þeir áttu félagið einir framan af en ráða nú samanlagt 25% á móti 75% eignarhlut Vinnslustöðvarinnar.

„Við njótum þess að hafa mjög gott starfsfólk, margir í þeim hópi hafa starfað lengi í fyrirtækinu. Og við vorum heldur betur heppnir með að ráða á sínum tíma Ragnhildi Svansdóttur sem framleiðslustjóra. Hún var þá óreynd á þessu sviði en hefur vaxið í starfi og skilar sínu gríðarlega vel.“

– Hvernig skiptið þið Hilmar með ykkur verkum í forystuteyminu?

„Mér vefst eiginlega tunga um tönn þegar ég svara því. Við erum tvíburasálir og framleiðslutúttur sem göngum hvor í verk hins eftir hendinni. Ég var meira í þróunarmálum áður fyrr en hann í framleiðslunni. Í grófum dráttum má segja að hann sinni framleiðslu fyrst og fremst en ég er aðallega í sölu- og gæðamálum. Svo er ég gjaldkeri líka!

Við höfum marga hatta til skiptanna. Starfsmennirnir eru hátt í 20 talsins og yfirbyggingin smá í sniðum. Þannig viljum við líka hafa það.“

– Hvað sáuð þið fyrir ykkur í upphafi að Marhólmar yrðu þegar þeir myndi dafna og þroskast?

„Markmiðið var að framleiða þúsund tonn af masago á ári og því höfum við náð.

Starfsemin var stofnuð og skipulögð sem vinnsla hráefnis sem til félli í Vinnslustöðinni, með öðrum orðum fullvinnsla sjávarfangs og aukin verðmætasköpun í sjávarútvegi.

Samstarfið við Vinnslustöðina er náið og árangursríkt. Marhólmar lifa nú á masago og þorskhrognum. Við framleiðum góða vöru og aukum stórlega verðmæti sjávarafurðanna. Marhólmar dafna vel á afmælinu.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.