Ný flatningsvél tvöfaldaði afköst í saltfiskvinnslunni

Netaveiðar Kap II VE og Brynjólfs VE ganga ljómandi vel á miðum í grennd við Eyjar. Aflinn fer að mestu í salt og hluti hans gæti jafnvel endað sem jólasaltfiskur á borðum í Portúgala í desember! Ný flatningsvél var tekin í gagnið í saltfiskvinnslu VSV í vetur og með henni tvöfölduðust afköstin.

Vinnslustöðin hefur tekið við um 1.100 tonnum af þorski til saltfiskvinnslu frá áramótum, aðallega frá netabátum en hluti aflans var veiddur í troll.

„Við leggjum mikla og vaxandi áherslu á saltfiskinn, ekki síst eftir að Vinnslustöðin keypti saltfiskvinnslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal. Þar með erum við orðnir beinir þátttakendur í vinnslu og sölu á þessum mikilvæga markaði,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskvinnslu VSV. 

Það er af sem áður var þegar fjöldi báta frá Vestmannaeyjum og öðrum útgerðarplássum í grenndinni stundaði netaveiðar við suðurströndina á vetrarvertíð. Nú eru einungis þessir tveir Vinnslustöðvarbátar á netum frá Vestmannaeyjum og lítið er líka um slíka útgerð frá Höfn, Þorlákshöfn og Grindavík miðað við það sem áður gerðist. 

„Netaveiði hentar vel útvegs- og vinnslufyrirkomulagi okkar og þess vegna heldur Vinnslustöðin tryggð við hana,“ segir Sverrir.

„Stutt er á miðin og lítil olíunotkun á siglingu og við sjálfar veiðarnar. Útgerðarkostnaður er því minni en við margt annað, til dæmis línuveiðar.

Svo er til að að taka að nú hafa menn netin í sjó mun skemur en áður tíðkaðist. Þau eru látin liggja á straumskilum, fallaskilum eða í birtuskilum og dregin nokkrum klukkustundum síðar. Netum er með öðrum orðum beitt á svipaðan hátt og gert væri með línu!

Þannig fæst ferskt og fínt fyrsta flokks hráefni, fiskur sem hentar í margs konar vinnslu en er að miklu leyti saltaður.

Veiðarnar ganga vel og fiskgengd er talsverð. Veður hefur hins vegar háð okkur talsvert.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.