Samruni Vinnslustöðvarinnar og Hugins samþykktur

 

Samkeppniseftirlitið hefur samþykkt samruna Vinnslustöðvarinnar hf. og Hugins ehf. og segir að kaup VSV á Hugin feli í sér „samruna í skilningi samkeppnislaga.“

Niðurstaða Samkeppniseftirlitsins er svohljóðandi, dagsett, 11. mars 2021:

Í  máli þessu er samruni Vinnslustöðvarinnar og Hugins til skoðunar í samræmi við ákvæði samkeppnislaga. Taka þarf til skoðunar hvort samruninn hindri virka samkeppni með því að markaðsráðandi staða verði til eða slík staða styrkist á hinum skilgreindu mörkuðum málsins eða verði til þess að samkeppni á markaði raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 1. mgr. 17. gr. e samkeppnislaga.

Samrunaaðilar telja að hvorki Vinnslustöðin né Huginn hafi samkvæmt framangreindum upplýsingum markaðsráðandi stöðu á viðkomandi mörkuðum og staða Vinnslustöðvarinnar muni styrkjast óverulega við kaup félagsins á Huginn. Við mat á samrunanum beri að hafa í huga að bæði fyrirtækin starfa í Vestmannaeyjum og engin breyting sé fyrirhuguð þar á. Við samrunann nýtist skip Vinnslustöðvarinnar betur en verið hafi, auk þess sem eitt öflugt skip bætist í flota félagsins. Augljóst sé að samruninn muni hvorki breyta eða raska hagsmunum neytenda né milliliða og hafi því ekki í för með sér neikvæð áhrif.

Sé litið til markaðshlutdeildar samrunaaðila, sem byggist m.a. á upplýsingum Fiskistofu, má sjá að samrunaaðilar eru samtals með um 5,3% af heildarhlutdeild eftir þorskígildum eftir samrunann og þannig vel innan leyfilegra hámarkshlutdeildarmarka, sem eru 12% samkvæmt lögum um stjórn fiskveiða.

Í samrunanum felst jafnframt aðsameinað félag öðlast yfirráð yfir Löngu ehf. sem hefur sérhæft sig í fiskþurrkun. í kjölfar samrunans myndast því lóðrétt tengsl í fiskþurrkun og vinnslu sjávarafla. Að mati Samkeppniseftirlitsins mun hið sameinaða fyrirtæki, m.t.t. markaðshlutdeildar sinnar, hvorki hafa hvata eða getu til þess að útiloka keppinauta sína. Eru því áhrif samrunans að þessu leyti hverfandi.

Með hliðsjón af hlutdeild samrunaaðila á skilgreindum mörkuðum þessa máls verður ekki séð að samruninn leiði til þess að markaðsráðandi staða verði til eða styrkist eða samruninn leiði til þess að samkeppni raskist að öðru leyti með umtalsverðum hætti, sbr. 17. gr. e samkeppnislaga.

Í ljósi þessa og með hliðsjón af gögnum málsins er það mat Samkeppniseftirlitsins ekki sé ástæða til að aðhafast frekar vegna samrunans á grundvelli 17. gr. samkeppnislaga.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.