Tölur toguðu í snyrtifræðinginn

Hana langaði alltaf til að læra snyrtifræði og lét það eftir sér. Fagið varð hins vegar ekki að brauðstriti því snyrtifræðingurinn er heillaður af tölum og hefur alltaf verið. Lovísa Inga Ágústsdóttir fær útrás með tölurnar í snyrtilegu bókhaldi á fjárreiðudeild Vinnslustöðvarinnar.

„Ég elska tölur og að vinna með þær, því það er bara eitthvað við það þegar þær ganga upp.“

Lovísa ljómar sannfærandi þegar hún sleppir orðinu. Augljóst er að hugur fylgir máli.

Hvar kemur þá snyrtifræðin inn í myndina?  Fékk Lovísa talnaköllun mitt í einhverri snyrtiaðgerð, stóð upp og lét sig hverfa?

Nei, svo dramatískt var það nú ekki en sagan hefði óneitanlega verið best þannig. Lovísa er gegnheill Eyjamaður, dóttir Gunnu á Sandfelli (Guðrúnar Ingibergsdóttur) og Gústa í Mjölni (Ágústs Þórarinssonar).

„Ég ætlaði mér alltaf að læra snyrtifræði og aldrei kom annað til greina en að klára það. Ég útskrifaðist sem stúdent af hagfræðibraut Framhaldsskóla Vestmannaeyja fyrir jólin 1989 og fór í framhaldinu að vinna í Sparisjóði Vestmannaeyja.

Síðan fór ég til Reykjavíkur í snyrtifræðinám, kom aftur heim og fór að vinna sem snyrtifræðingur á Snyrtistofu Ágústu en fór fljótlega að vinna hálfan dag á móti á skrifstofu Geisla raftækjavinnustofu.

Svo ákvað ég að söðla um og vera hálfan dag í Berg-Huginn á móti hálfum degi í Geisla en endaði svo bara í Berg-Huginn þegar ég eignaðist fyrra barnið mitt, í útreikningi launa, útflutningi og fl. Þar var ég í alls 13 ár og eignaðist tvö börn á þeim tíma, 2000 og 2003, með tilheyrandi fæðingarorlofi.

Á árinu 2011 var gripið til hagræðingar í rekstri Bergs-Hugins og mér var sagt upp störfum.“

­– Þú hlýtur að hafa velt fyrir þér að snúa þér þá að snyrtifræðinni frekar en að mæla götur í atvinnuleysi?

„Já, ég velti því auðvitað fyrir mér en tölurnar toguðu í mig og ég mér bauðst að gerast gjaldkeri í afleysingum í Íslandsbanka.

Um haustið fékk ég fast starf á skrifstofu Vinnslustöðvarinnar og er þar enn, á fínum vinnustað þar sem starfsandinn er góður. Allir eru samtaka og hjálpast að, hér er hvorki rígur né leiðindi.

Ég var fyrst í launamálum en á árinu 2017 losnaði starf í fjárreiðudeildinni og þar er ég í bókhaldi og er afskaplega ánægð með tilveruna.“

Eiginmaður Lovísu, Ólafur Jakobsson, er fæddur og uppalinn í Vík í Mýrdal. Hann kom til Eyja til náms í stýrimannaskólanum og var kyrrsettur, reyndar fjarri því að vera eini aðkomumaðurinn sem sest á skólabekk í Vestmannaeyjum og festir þar ráð sitt og rætur. Foreldrar Ólafs komu meira að segja á eftir syni sínum og fluttu til Eyja árið 2006.

– Snerti gosið í Heimaey þig á einhvern átt?

(Opin skylduspurning í samtali við Eyjamann. Lovísa lítur reyndar út fyrir að hafa ekki einu sinni verið fædd 1973 en það má samt prófa að spyrja frekar en þegja).

„Ég var tveggja og hálfs árs þegar fór að gjósa og við forðuðum okkur um nóttina upp á land í Leó VE 400. Ég man ekkert frá þeirri ferð eða hélt öllu heldur að ég myndi ekkert. Löngu síðar rifjaði ég upp draum eða martröð um kött sem var settur upp í koju til mín og ég sturlast af hræðslu. Mamma sagði þá að þetta hafi ekki verið draumur heldur hafi þetta gerst í kojunnni í bátnum á gosnóttina. Þar hafi veri köttur sem var settur upp í til mín til að sýna mér og gleðja en ég hafi bara orðið skít hrædd. Martröðin reynist vera eina minningin mín um gosnóttina og mér hefur lítið verið um ketti gefið síðan.

Mamma tók með sér eina bleyju á mig fyrir brottför frá Eyjum. Hún bjóst við að skreppa bara rétt út fyrir Eyjar og koma fljótt aftur til baka. Sú varð ekki raunin.

Við bjuggum í Njarðvík og á Selfossi en fluttum til baka ári síðar, 1974, en ekki samt heim í bókstaflegum skilningi. Húsið okkar að Gerðisbraut 8 fór undir hraun. Foreldrar mínir byggðu það á árunum 1969-1971 og örlögin gripu í taumana þegar fór að gjósa. Æskuheimilið hvarf en aðeins sést í rústir þess núna rétt við Eldheima.“

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.