Tvö smit greindust í eigin veiruprófum

Vinnslustöðvarinnar meðal starfsmanna

Tvö COVID-smit hafa greinst undanfarna daga í eigin veiruprófum Vinnslustöðvarinnar meðal starfsmanna, annað í VSV en hitt í þjónustufyrirtækinu Hafnareyri ehf., dótturfélagi VSV. Niðurstöðurnar voru í báðum tilvikum staðfestar á heilsugæslunni með PCR-prófum.

„Við höfum tekið á sjöunda tug prófa hjá okkur og starfsmennirnir lýsa mikilli ánægju með að þetta sé yfirleitt gert og hvernig að málum sé staðið. Prófin eru auðveld í framkvæmd og við fengum leiðbeiningar fagfólks um hvernig við skyldum bera okkur að,“ segir Trausti Hjaltason, framkvæmdastjóri Hafnareyrar.

„Starfmenn Hafnareyrar, sem fóru í helgarfrí á föstudaginn var, tóku til að mynda tilheyrandi gögn með sér heim og prófuðu sjálfa sig áður en þeir mættu til vinnu aftur að morgni mánudags.

Prófin koma ekki í stað PCR-prófanna og eftir sem áður hvetjum við því starfsmenn til að snúa sér beint til heilsugæslunnar finni þeir til sjúkdómseinkenna. Eigin próf okkar eru hins vegar mikilvægt vopn í baráttunni við veiruna. Þau gera fólkið enn meðvitaðra um að undir okkur sjálfum komið að standa saman og berjast sem ein heild fyrir því að halda veirunni frá fyrirtækinu.“

Lilja Björg Arngrímsdóttir starfsmannastjóri segir að veiruprófin í Vinnslustöðinni séu alls orðin hátt í 300 talsins í skipum og í landi:

„Prófin eru einföld, fljótleg og þægileg öryggisráðstöfun sem ég heyri að mælist vel fyrir meðal starfsmanna. Þá hef ég sjálf tekið á förnum vegi við hrósi fyrir hönd fyrirtækisins frá fjölskyldum starfsmanna Vinnslustöðvarinnar fyrir veiruprófin. Fólk skynjar nefnilega sterklega að þegar við reynum að slá heilbrigðisskjaldborg um starfsfólkið njóta fjölskyldur þess og nánir aðstandendur góðs af því líka. Baráttan okkar varðar allt samfélagið í Vestmannaeyjum.“

Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, tekur undir þetta og bætir við:

Reynslan sýnir að okkur er treystandi til að prófa starfsmennina og okkur sjálf. Reynslan sýnir líka að prófin virka. Við eigum mikið undir því að verja starfsemina og halda rekstrinum gangandi áfallalaust.“

Trausti Hjaltason tók þessar myndir í dag af tveimur starfsmönnum á verkstæði Hafnareyrar veiruprófa sig í kaffistofunni. Þeir heita Arnar Berg Arnarsson og Arnar Gauti Egilsson. Jákvæðir og glaðbeittir strákar í daglegri tilveru en gjörsamlega neikvæðir í COVID-prófinu!

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.