Vertu sæll, Brynjólfur, takk fyrir allt!

„Við vorum að ganga frá um borð og kveðja höfðingjann. Það var sérstök tilfinning,“ sagði Klemens Sigurðsson skipstjóri á Brynjólfi VE-3 í Belgíu í gærkvöld eftir að hafa skilað skipinu í hendur nýrra eigenda.

Vinnslustöðin seldi skipið til niðurrifs og kaupendurnir tóku sem sagt við því ytra í gærkvöld. Fjögurra manna áhöfn sigldi Brynjólfi út og sonur eins þeirra var sá fimmti um borð.

„Við lögðum af stað frá Vestmannaeyjum 1. desember og komum hingað á áfangastað að kvöldi 6. desember. Lokaáfanginn var óvenjulegur fyrir okkur og býsna krefjandi. Við sigldum eftir skipaskurðum langt inn í land og umferð var mikil á leiðinni. Óhætt er að segja að leggur ferðarinnar hafi verið krefjandi og kallaði á ekki minna en 110 prósenta árvekni og aðgæslu“!

Brynjólfur er íslenskt gæðaskip, smíðaður á Akranesi 1987 og var liður í raðsmíðaverkefni í íslenskum skipasmíðaiðnaði á þeim tíma. Skipið hefur alla tíð verið í mikilli notkun. Það hefur verið rækjufrystiskip, botnfisktogari, humarbátur og netabátur og alltaf gengið vel.

Vinnslustöðin eignaðist Brynjólf árið 2005 og gerði þá miklar endurbætur á skipinu. Nú var aftur kominn mikil þörf fyrir viðhald og endurbætur en ekki var talið borga sig að fara í slíkt núna. Skipið er einfaldlega búið að gegna sínu hlutverki og skila sínu.

 

Frá vinstri á myndinni eru Leifur Hjartarson (sonur Hjartar Sigurðssonar), Hjörtur Sigurðsson vélstjóri, Klemens Sigurðsson skipstjóri, Úlfar Kári Jóhannsson vélstjóri og Helgi Ágústsson stýrimaður.

 

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.