Við munum draga lærdóm af

undirbúningi fyrir þriðja leikinn

„Það var ólýsanlega gaman að vakna í morgun, horfa framan í fólkið sitt og alla á förnum vegi í Vestmannaeyjum eftir að hafa tekið að þátt því að færa byggðarlaginu Íslandsmeistaratitilinn. Sjómannadagshelgin verður einstök í ár þegar saman fer fögnuður og heiður til handa sjómönnum og uppskeruhátíð í handboltanum!

Þetta var hörkuleikur, við þurftum að hafa mjög fyrir því að ná markmiðinu. Fyrst og fremst var þetta sigur liðsheildarinnar og ÍBV sem íþróttabandalags.“

Dagur Arnarson, leikstjórnandi nýkrýndra Íslandsmeistara ÍBV í handbolta og rekstrarstjóri hjá Iðunni Seafoods/VSV, er að vonum skýjum ofar í dag eftir frækilegan sigur í úrslitaleiknum við Hauka.

„Sigurinn var á ýmsan hátt sætari þegar þetta hafðist í fimmta leik, í hreinni úrslitarimmu. Við gátum auðvitað klárað þetta í þriðja leiknum en ég er ekkert feiminn við að viðurkenna eftir á að Eyjamenn fóru fram úr sér í aðdraganda þriðja leiksins og undanskil ekki okkur sjálfa í liðinu. Við fögnuðum of snemma, það þarf auðvitað að sigra í leiknum sjálfum áður en innistæða er fyrir fagnaðarlátum.

Við gátum klárað þetta með þremur sigrum í röð, eftir á að hyggja var algjör óþarfi að missa sig í yfirspennu í stað þess að komast aðeins fyrr í sumarfrí. Við fengum að launum geggjaðan fögnuð okkar fólks. Þessar stundir í úrslitakeppninni gleymast aldrei.

Það sem gerðist hjá okkur var mjög svipað því sem gerðist á Sauðárkróki í körfuboltanum á dögunum en sem betur fer hafðist þetta bæði þar og hér í Eyjum í gær. Ég skynja það afar sterkt að fólk á landsbyggðinni var með okkur og Sauðkrækingum í huganum í úrslitaleikjunum og fagnar sigri á báðum stöðum.

Við verðum að draga lærdóm af undirbúningi fyrir þriðja leikinn hjá okkur og munum örugglega gera það og sýna það í verk.“

Dagur hefur verið lengi að í meistaraflokki ÍBV og lætur ekki staðar numið.

„Núna fögnum við innilega en í júlí byrja æfingar á nýjan leik. Ég hef samið um að spila áfram næstu tvö árin. Talsverðar breytingar verða núna á liðinu en það er ekkert nýtt. Ég hef ekki tölu á öllum þeim leikmönnum sem hafa komið og farið frá okkur í atvinnumennsku eða tekið sér hlé undanfarin ár. Alltaf mallar samt ÍBV-vélin áfram.

Þetta tímabil mitt í meistaraflokki er númer 10 og ég bæti við tveimur í það minnsta. Það tekur á að sinna handboltanum, atvinnunni og fjölskyldunni samtímis en gengur, þökk sé atvinnurekendanum og auðvitað eiginkonunni og fjölskyldunni allri. Ég er afar þakklátur fyrir þann skilning sem mér er sýndur í vinnunni og heima fyrir. Tíminn sem fer í handboltann er ótrúlega mikill, meiri en margan grunar.

Ég er reyndar fjölskyldutengdur Vinnslustöðinni því Gústi rafvirki þar er afi minn, sjálfur er ég Eyjamaður í húð og hár.

Ég nota tækifærið til að senda Eyjamönnum kveðjur með innilegu þakklæti fyrir stuðninginn sem engin orð ná yfir. Sömuleiðis sendi ég sjómönnum sérstakar baráttukveðjur og hamingjuóskir í tilefni sjómannadagsins.“

  • Óskar Pétur Friðriksson tók þessa frábæru myndir og þökk sé honum!

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.