Vinnslustöðin kaupir uppsjávarskipið Garðar frá Noregi

Stjórn Vinnslustöðvarinnar hefur samþykkt kaupa H-34-AV Gardar af norsku útgerðarfyrirtæki og bæta þar með við fjórða skipinu í uppsjávarflota sinn. Þar eru fyrir Huginn, Ísleifur og Kap.

Skipið fer nú i slipp í Danmörku til hefðbundinnar skoðunar vegna eigendaskipta. Að öllu óbreyttu kemur það til nýrrar heimahafnar í Vestmannaeyjum undir lok júnímánaðar og verður gert klárt til makrílveiða.

Skipstjóri verður Jón Atli Gunnarsson núverandi skipstjóri á Kap VE.

Garðar á sér sögu á Íslandi, annars vegar sem Margrét EA í eigu Samherja og hins vegar sem Beitir NK í eigu Síldarvinnslunnar. Skipið var selt úr landi en núverandi heimahöfn er Björgvin í Noregi. Og nú liggur leiðin sem sagt til Íslands á ný ...

Garðar er liðlega 70 metra langur og 13 metra breiður. Lestarpláss er 2.100 rúmmetrar.

Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, fór á dögunum ásamt fleirum fulltrúum fyrirtækisins til Skagen í Danmörku til að skoða Garðar þegar hann kom þangað til löndunar:

„Okkur leist strax afar vel á enda er þetta hörkuskip sem búið er að endurnýja margt í og gera mikið fyrir. Aðalvélin er til dæmis ný, afar hagkvæm í rekstri og togkraftur er mikill.

Það er búið að fara yfir kælikerfi og lestar, blökkin er ný og skipið lítur í alla staði vel út.“

Af skipamálum Vinnslustöðvarinnar er það líka að frétta að Sighvatur Bjarnason VE hefur verið seldur úr landi.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.