Vinnslustöðin færist upp eftir lista fyrirmyndarfyrirtækja

Vinnslustöðin er nr. 37 á lista alls 842 fyrirmyndarfyrirtækja af öllum stærðum og gerðum á landinu öllu árið 2020. Creditinfo birti listann í dag.

Vinnslustöðin var í 46. sæti fyrir árið 2019 og hefur því þokast upp um níu sæti frá því í fyrra á þessum eftirsótta gæðalista!

Einungis um 2% allra íslenskra fyrirtækja standa strangar kröfur sem gerðar eru til að komast í þennan úrvalsflokk fyrirtækja.

Creditinfo skiptir fyrirtækjunum í þrjá flokka eftir stærð:

 • Lítil (eignir samtals 100-200 milljónir króna).
 • Meðalstór (eignir samtals 200-1.000 milljónir króna).
 • Stór (eignir samtals 1.000 milljónir króna eða meira.

Alls eru níu fyrirtæki í Vestmannaeyjum á fyrirmyndarlistanum 2020. Þau eru eftirfarandi, framan við er númer þeirra á lista alls 842 fyrirmyndarfyrirtækja.

37 – Vinnslustöðin hf.

40 – Ísfélag Vestmannaeyja hf.

68 – Huginn ehf.

174 – Ós ehf.

245 – Bylgja VE-75 ehf.

425 – Vélaverkstæðið Þór ehf.

491 – Skipalyftan ehf.

783 – Fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja.

838 – Miðstöðin Vestmannaeyjum ehf.

Það að komast á lista fyrirmyndarfyrirtækja snýst í raun um stöðugleika í rekstri en ekki að ná góðum árangri í eitt og eitt ár. Stöðugur og góður árangur ár eftir ár telst framúrskarandi. Detti fyrirtæki út af listanum þarf það framúrskarandi rekstrarárangur þrjú næstu ár til að komast inn á listann á nýjan leik.

Standast þarf eftirfarandi kröfur til að teljast framúrskarandi 2020:

 • Fyrirtækið er í lánshæfisflokki 1, 2 eða 3.
 • Ársreikningi skilað lögum samkvæmt eigi síðar en átta mánuðum eftir uppgjörsdag.
 • Fyrirtækið er virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
 • Framkvæmdastjóri skráður hjá ríkisskattstjóra.
 • Rekstrartekjur að minnsta kosti 50 milljónir króna síðustu þrjú ár.
 • Rekstrarhagnaður (EBIT) jákvæður síðustu þrjú ár.
 • Jákvæð rekstrarniðurstaða síðustu þrjú ár.
 • Eiginfjárhlutfall að minnsta kosti 20% síðustu þrjú ár.
 • Eignir að minnsta kosti 100 milljónir króna síðustu þrjú ár.

Cookies on VSV website.

This site uses cookies. By browsing our site you acknowledge that you have read and agree with our cookie policy.