Fara á efnissvæði
World Map Background Image
20230310 120215 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Svartfuglinn loksins sestur upp og þá kemur loðnan, væntanlega og vonandi

– segir Sigurgeir í Skuld

„Miðað við fyrri reynslu gæti loðna verið að ganga núna til vesturs á milli Hornafjarðar og Vestmannaeyja, í Fjallasjónum eða við suðurströndina. Eigum við þá ekki að segja að eftir þrjá til sjö daga megi búast við loðnugöngu við Eyjar? Svartfuglinn var hálfum mánuði seinna á ferðinni í bjargið í ár en gjarnan gerist og þá álykta ég að loðnan sé líka sem því nemur seinni á ferðinni en áður.“

Höfðinginn í Skuld, Sigurgeir Jónasson, hefur haldið dagbækur svo áratugum skiptir og skráir meðal annars hjá sér hvenær svartfugl sest upp í bergið í Ystakletti. Það gerist venjulega nálægt miðjum febrúar en í ár var kominn marsmánuður þegar syllur Ystakletts voru fullskipaðar.

„Ég fór að taka eftir því að þremur til sjö dögum eftir að svartfugl settist upp í Ystakletti var komin veiðanleg loðna innan við Elliðaey. Í fyrra skráði ég í dagbókina að fyrsti svartfuglinn væri sestur upp 14. febrúar og 22. febrúar voru loðnubátar að veiðum norðan við Eyjar.

Á föstudaginn var, 1. mars, sá ég fyrst svartfugl á tveimur syllum í Ystakletti en í dag, 3. mars, var allt bergið undirlagt. Fuglar á öllum syllum.

Ég veit auðvitað ekkert um hvort einhver loðna er í sjónum yfirleitt en ef við miðum við skráða reynslu frá fyrri árum ætti loðna að ganga fram hjá Vestmannaeyjum eftir fjóra til sjö daga.

Fuglinn og loðnan eru þannig hálfum mánuði síðar á ferðum en áður. Ég er enginn vísindamaður en kann að lesa í náttúruna og tek til dæmis meira mark á eigin veðurspám en þeim sem Veðurstofan miðlar okkur. Ég lærði snemma að lesa skýin og annað í umhverfinu og það hefur reynst vel.

Svartfuglinn er býsna nákvæmur með tímann þegar hann sest upp í bergið  en það getur rokkað fram og til baka um fáeina daga, allt eftir veðri og ölduhæð. Fuglinn kýs frekar mildan sjó og hægvirði en rok og mikið brim þegar hann kemur sér fyrir.“

Og þar með höfum við það.

Samtalið átti sér stað þegar Sigurgeir var nýstaðinn upp úr sjónvarpsstólnum eftir að hafa fylgst með United tapa fyrir City í borgarslag Manchesterliðanna í enska fótboltanum. Hann var sem gegnheill United-maður eðlilega ekki sérlega kátur með úrslitin.

Tæplega var því á bætandi að minnast í lok samtalsins á kröfur fjármálaráðherra um að gera úteyjar Vestmannaeyja og hluta Heimaeyjar að þjóðlendu. Álseyingurinn Sigurgeir var snöggur til svars og afgreiddi þjóðlendufrekju ríkisins í fáum orðum:

„Þetta mál er einfaldlega fávitalegt af hálfu ríkisvaldsins. Hingað komu á dögunum sendiboðar að sunnan til að kynna okkur þjóðlendukröfurnar fyrir hönd fjármálaráðuneytisins.

Mitt svar var hátt og skýrt í áheyrn allra fundarmanna: Þið fáið aldrei Álsey!

Og hana nú.“

  • Meðfylgjandi mynd fylgdi frétt Ómars Garðarssonar í Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.

 

Mbl.14.Agust.2021

Álseyjarkóngur í ríki sínu. Frétt Ómars Garðarssonar i Morgunblaðinu 14. ágúst 2021.