Fara á efnissvæði
World Map Background Image
K94A3618 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Góð byrjun og fín gæði á fyrstu Íslandssíldinni sem Gullberg VE landaði hjá Vinnslustöðinni

Gullberg VE kom til Vestmannaeyja í gær með fyrsta síldarfarm vertíðarinnar, alls um 860 tonn.

Að sögn Jóns Atla Gunnarssonar, skipstjóra á Gullbergi, hefur byrjunin verið góð og aflinn fínn miðað við árstíma.

K94A3621

Gullberg VE kemur að bryggju í gær.

Síldin gengur innarlega

„Við fengum um átta hundruð og sextíu tonn í þremur holum,“ segir Jón Atli. „Þetta er svona hefðbundin vertíðarsíld.“

Hann segir að síldin hafi verið að ganga nokkuð innarlega miðað við undanfarin ár.


„Við vorum þarna á svæði sem menn kalla hefðbundna slóð, og það hefur verið dálítið sérstakt núna. Það virðist vera talsvert af síld þar sem við erum farin að nálgast 12 mílna mörkin. Við erum ekkert að trolla þar inn á við, en það verður bara að koma í ljós á næstu dögum hvernig þetta þróast — hvort síldin ætlar að halda sig þar inni eða færa sig utar.“

Spurður hvenær hann reikni með að fara aftur segir Jón Atli að það ráðist af því hvernig gengur að vinna aflann.

„Við byrjum strax í löndun, en það er verið að flapsa (samflök) þetta, þannig að það tekur sinn tíma. Það gæti orðið miðvikudagskvöld eða jafnvel komið fram á fimmtudag áður en við förum aftur.“

Jón Atli segir að byrjunin lofi góðu og að áhöfnin sé bjartsýn á framhaldið.

„Þetta er bara góð byrjun. Við fylgjumst núna með því hvernig síldin hagar sér næstu vikurnar — hvort við finnum hana reglulega á þessum hefðbundnu slóðum. Ef svo er, þá verður þetta fín vertíð.“

K94A3617

Með 860 tonn af Íslandssíld

Góð gæði

Að sögn Benónýs Þórissonar, framleiðslustjóra VSV, hefur síldin sem kom með Gullbergi reynst mjög góð, bæði í stærð og gæðum.

„Þetta er síld í 290–300 gramma meðalstærð og mjög góð í gæðum,“ segir Benóný. „Manni finnst hún jafnvel betri núna en oft áður í þessari Íslandssíld. Þetta lofar góðu fyrir framhaldið.“

Hann segir að mest af síldinni fari í flakaða framleiðslu og að ferlið gangi afar vel.

„Þetta fer nánast allt í flakaða framleiðslu. Þegar við flökum svona síld fer afskurðurinn í bræðslu sem er svona 50/50, þannig að þetta gengur mjög vel í gegnum vinnsluna,“ útskýrir hann.

Að sögn Benónýs fer vinnslan hratt fyrir sig. „Við erum að vinna þetta í einum til tveimur sólarhringum, þannig að þetta verður fljótt afgreitt,“ segir hann.

Benóný bætir við að andinn í vinnslunni sé góður og starfsfólk ánægt að vertíðin sé hafin. „Það er alltaf ákveðin spenna og stemning þegar fyrsta síldin kemur í hús. Þetta er góð byrjun og við hlökkum til framhaldsins.“

Hér að neðan má sjá myndband af komu Gullbergsins til Eyja í gær, auk þess sem áhöfn Hugins VE gerir skipið klárt á síldveiðar.