Meistaraverk Atlantshafsins á jólaborð í Portúgal
Nú þegar nóvembermánuður gengur í garð fer undirbúningur jólanna að gera vart við sig víða. Á Íslandi eru til dæmis IKEA – jólageitin og auglýsingar um jólatónleika Baggalúts og fleiri góðra tónlistarmanna, meðal fyrstu merkja um upphaf jólaundirbúningsins.
En í Portúgal er það saltfiskurinn sem allt snýst um, þegar nær dregur jólum. Á jólunum er það saltfiskur sem er aðalhátíðamaturinn og á aðfangadagskvöld eru borðuð um 5.000 tonn af saltfiski í Portugal!
Frá því í október og fram að jólum er mikill annatími í framleiðslu, dreifingu og sölu á saltfiski í Portúgal, enda allir sem vilja tryggja sér góðan fisk á jólaborðið.
Hjá Grupeixe, fyrirtæki Vinnslustöðvarinnar í Portúgal er þetta því annasamasti tími árins og þar er keppst við að afhenda fisk til verslana, veitingahúsa og neytenda, allt fram að jólum.
Lögð er áhersla á uppruna, gæði og sérstöðu íslensks saltfisks í verslunum fyrir hátíðarnar.
Grupeixe markaðsetur jólasaltfisk í hæsta gæðaflokki
Kröfurnar um góða vöru eru miklar enda sjálfur jólamaturinn í húfi. Saltfiskurinn frá Grupeixe stendur vel undir þeim kröfum en nú hefur fyrirtækið sett sérstakan jólasaltfisk á markað undir heitinu „ Bacalhau Especial – Cura superior 9 meses“. Þar er um að ræða sérvalin fisk sem staðið hefur í salti að lágmarki 9 mánuði, áður en hann er svo þurrkaður og honum pakkað. Með langri stöðu í salti verkast fiskurinn enn betur, svo að eftirsóknarverðir eiginleikar, saltfiskbragð og stíf áferð verða sterkari. Að auki er fiskurinn stór, fullþurrkaður fiskur sem er yfir 3 kg og verður því afar þykkur og fallegur þegar búið er að útvatna hann.
Þessi sérvaldi og sérmeðhöndlaði saltfiskur er eingöngu í boði í 36 völdum verslunum hjá smásölukeðjunni Auchan sem er ein af þeim stærstu í Evrópu. Stjórnendur þeirra deilda, sem selja þennan fisk, frá Grupeixe, hafa fengið sérstaka fræðslu um fiskinn, uppruna hans, eiginleika og framleiðslu. Þeim upplýsingum er svo miðlað til neytenda í verslununum.
Takmarkað magn er í boði, enda um sérvöru að ræða, en í heild eru það 3.500 númeraðir fiskar sem fara í þessa vörulínu.
Yfirskrift vörunnar er „A obra-prima do Atlântico“ en það má þýða sem meistarverk Atlantshafsins.
Fræðsla fyrir starfsfólk Auchan.
Góð vara þarf sterka rödd
Nuno Araújo, framkvæmdastjóri Grupeixe lýsir þessu markaðsverkefni sem áhersluauka á mikilvægi íslensks saltfisks frá fyrirtækinu.
„Grupeixe er í raun íslenskt fyrirtæki í Portúgal og að sjálfsögðu er íslenskur fiskur aðalsmerki okkar. Einkunnarorð Grupeixe eru „Somos origem“ (Ísl, Við erum uppruninn) og á því byggjum við fyrst og fremst, þótt við bjóðum einnig fisk frá Noregi og víðar að. Með því að sérvelja og verka fiskinn með þessum hætti drögum við enn frekar fram þau gæði og þá eiginleika sem íslenski fiskurinn hefur.“
Hann bendir á að góð vara ein og sér tryggi ekki árangur. „Við þurfum einnig að markaðssetja hana með réttum hætti og miðla því til neytenda hvernig og af hverju vara okkar beri af og hvers vegna þeir eigi að velja hana umfram annað. Til þess þarf að leggja mikið í markaðsefni, fræðslu og gott samstarf við smásöluaðila. Það er mikils virði að geta unnið með Auchan að þessu verkefni.“
Að sögn Nuno verður einnig boðið upp á viðburði þar sem kokkar halda vinnustofur og sýna hvernig saltfiskur er matreiddur á fjölbreyttan hátt. „Þannig gefst fólki tækifæri til að fræðast um matargerðina og kynnast vörunni betur.“
Síðast en ekki síst vill Nuno nefna að vörunni verður stillt upp í verslunum Auchan í sérsmíðuðum básum. „Þeir eru gerðir hjá samtökunum CASCI, sem rekur vinnustofu fyrir fatlaða einstaklinga í Ilhavo, í nærsamfélagi Grupeixe. Þannig reynum við að tengja samfélagsverkefni og markaðsstarf saman“, segir Nuno að lokum.
Nuno Araújo, framkvæmdastjóri Grupeixe (t.h.) og innkaupastjóri Auchan kynna nýja jólasaltfiskinn Bacalhau Especial – Cura superior 9 meses.
Markaðsetning á betri og dýrari vöru
Mikið er haft fyrir þessari meðferð á fiskinum, hún er tímafrek og dýr. En á móti kemur að Grupeixe getur þannig boðið hinn besta fáanlega saltfisk fyrir neytendur í Portúgal. Með því að velja „Bacalhau Especial – Cura superior 9 meses“, geta neytendur verið vissir um að þeir beri það besta fram á jólaborðið. Varan er betri og dýrari en önnur sambærileg vara, verðmæti hennar er meira en um leið undirstrikar hún bæði gæði og sérstöðu íslensks saltfisk á Portúgalsmarkaði.
Íslendingar geta líkt þessu við jólahangikjötið sem ómissandi er á flestum heimilum um jól, þá vill fólk aðeins besta fáanlega hangikjötið á sinn disk.
Vandaður saltfiskur í hátíðarumgjörð.
Bacalhau Especial – Cura superior 9 meses. Þykkt, fallegt og bragðmikið hráefni sem hefur fengið að þroskast í níu mánuði í salti.