Fara á efnissvæði
World Map Background Image
FIVE TMS 20210730 182016 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Undanfarna daga hefur verið mikil umræða um raforkuflutninga til Vestmannaeyja og hækkun á gjaldskrá Landsnets samhliða lagningu nýrra rafstrengja. Í þeirri umræðu er gagnlegt að hafa í huga að málið er tvíþætt.

Nauðsynlegri framkvæmd lokið

Annars vegar snýst þetta um lagningu nýrra strengja til Vestmannaeyja sem allir fagna enda um að ræða endurbætur  á stöðu sem löngu var orðin tímabær. Í þeirri stöðu sem upp var komin var nauðsynlegt  að endurnýja gamla og gallaða strengi auk þess sem varaafl í Vestmannaeyjum var ekki nægjanlegt til að tryggja afhendingaröryggi raforku. Endurnýjun og viðbót við raforkuflutningskerfið er forsenda fyrir öruggri og stöðugri raforku til íbúa og atvinnulífs í Vestmannaeyjum.

Verðlagning gerir orkuskipti ómöguleg

Hins vegar snýst þetta um verðlagningu á flutningi raforkunnar og breytingu á gjaldskrá, sem er sá þáttur sem valdið hefur hvað mestum áhyggjum. Verðlagningin er orðin þannig að mun hagstæðara er að nota olíu við gufuframleiðslu í fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar heldur en að nota rafmagn. Þetta er staða sem við í Vinnslustöðinni hefðum aldrei talið geta komið upp. Hún er í algjörri andstöðu við þá stefnu sem fyrirtækið hefur markvisst fylgt frá árinu 2002, þegar fjárfest var í búnaði til að gera orkuskipti möguleg, þ.e. hætta að nota olíu og nota eingöngu rafmagn. Staðan hefur því snúist við með mjög afgerandi hætti.

Raforkukostnaður margfaldast

Í verksmiðjunni er framleidd gufa til að flytja varma inn í framleiðsluferlið. Ef gufa væri eingöngu framleidd með olíu væri orkukostnaðurinn um 10-12 kr/kWh. Með rafmagni, eftir nýlegar gjaldskrárhækkanir Landsnets, verður orkukostnaðurinn rúmlega 30 kr/kWh. Við þessar breytingar hækkar flutningskostnaður raforku til rafskautaketilsins í verksmiðjunni um 500%, sem jafngildir um 400 - 500 milljónum króna auknum árlegum kostnaði ef verksmiðjan væri rekin eingöngu á rafmagni. Það er augljóst að ekki er hægt að greiða þrefalt hærra orkuverð á grundvelli hugsjóna.

Orkuskipti fara ekki lengur saman með ábyrgum rekstri

Viðbótarkostnaður af þessari stærðargráðu er hvorki raunhæfur né ábyrgt að samþykkja. Samkeppnisstaða okkar gagnvart öðrum framleiðendum veikist til muna og rekstur verksmiðjunnar yrði óarðbær. Í reynd er því orðið um 400 - 500 milljónum króna ódýrara á ári að framleiða gufu með innfluttri olíu en með rafmagni sem framleitt er úr íslenskum fallvatnsvirkjunum, sem verður að teljast mjög öfugsnúið í ljósi markmiða um orkuskipti og loftlagsmál. Auk þess setur þetta öll orkuskipti sem unnið hefur verið að í verksmiðjunni undanfarin ár og áratugi í talsverða óvissu.

Fiskimjölsverksmiðjur eru þannig útbúnar að þær geta nýtt bæði rafmagn og olíu, sem veitir mikilvægan sveigjanleika. Slíkur sveigjanleiki ætti að gera verksmiðjuna að ákjósanlegum notanda raforku, þar sem hægt er að keyra á rafmagni þegar framboð er gott en á olíu þegar aðstæður krefjast. Auk þess er keyrslan mjög vertíðarbundin og á stuttum tíma er mikil orkunotkun. Núverandi gjaldskrá Landsnets virðist engan veginn taka mið af slíkum aðstæðum.

Endurnýjun rafstrengja stuðli að framförum

Það kostar að leggja nýja strengi og án þess að vita nákvæmlega hvað það kostar þá er það eflaust umtalsverð fjárhæð, líklega á bilinu 3 – 4 milljarðar króna. En 400 – 500 milljónir í auknum árlegum kostnaði eru líka miklir peningar sem hægt er að nýta til annarra fjárfestinga. Ef hin fiskimjölsverksmiðjan í Vestmannaeyjum yrði einnig keyrð eingöngu á rafmagni, þá erum við að tala um að tveir aðilar í Vestmannaeyjum greiddu aukalega 800 – 1.000 milljónir árlega fyrir flutning á rafmagni bara vegna þess að tveir nýir rafmagnsstrengir voru lagðir til Eyja og þá eru aðrir kaupendur ótaldir.  Framkvæmdin  var nauðsynleg til að endurnýja gamla og gallaða strengi.  Ef við höfum rétt fyrir okkur með kostnað við nýju strengina þá hyggst Landsnet fá fjárfestinguna endurgreidda á 4 – 5 árum en líklegur endingartími strengjanna er 15 – 25 ár.   Eitthvað er skakkt í þessu dæmi og eflaust hefði verið miklu ódýrara fyrir fyrirtækin að leggja þessa strengi sjálf.

Það hlýtur að vera sameiginlegt markmið allra á Íslandi að auka sem mest notkun á grænni orku, en ef það á að takast þá verða forsendur að vera réttar. Ef okkur tekst það, þá getum við talað um “sigur” öllum til heilla.