Raforkuverð setur fjárfestingar fiskimjölsverksmiðjunnar í uppnám
Mikil óvissa hefur skapast í rekstri fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum vegna nýs fyrirkomulags í raforkuverði og flutningi rafmagns. Samkvæmt Unnari Hólm Ólafssyni, verksmiðjustjóra FIVE – fiskimjölsverksmiðju VSV hefur staðan þróast þannig að rafmagn, sem áður var augljós hagkvæmur og umhverfisvænn kostur, er orðið margfalt dýrara en olía.
„Fyrir okkur er þetta mjög alvarleg staða. Við höfum farið í miklar fjárfestingar með það markmið að rafvæða verksmiðjuna, en nú stöndum við frammi fyrir því að geta ekki nýtt þær,“ segir Unnar.
Áratuga fjárfestingar í rafvæðingu
Fiskimjölsverksmiðjan hefur frá árinu 2002 verið rekin með blöndu af rafmagni og olíu. Þá var ráðist í uppbyggingu ketilhúss, keyptur rafskautaketill og lagðir innviðir til að nýta raforku í orkuframleiðslu. Síðar var fjárfest í öðrum rafskautakatli, sem stendur tilbúinn í ketilhúsinu, en hefur ekki verið tengdur að fullu vegna skorts á orku og flutningsgetu hingað til.
„Hugmyndin var alltaf að fara alla leið og rafvæða verksmiðjuna. Þá værum við að tala um 12–15 megavött í stað þeirra 5–8 megavatta sem við höfum keypt hingað til,“ útskýrir Unnar. „Með nýju ári stefnir hins vegar í að rafmagnsnotkun í orkuframleiðslu verði nánast engin.“
Á sínum tíma var ávinningurinn skýr: rafmagn var mun hagkvæmara en olía og umhverfisáhrifin gríðarleg. Undanfarin ár hefur kostnaðurinn þó jafnast og nú hefur dæmið snúist algjörlega við.
Unnar Hólm Ólafsson
Verðhækkun sem kollvarpar rekstrinum
Samkvæmt Unnari hefur raforkuverð hækkað um allt að 100% frá árinu 2023 og nýtt fyrirkomulag, þar sem verð og flutningsgjöld eru breytileg milli mánaða, bætist ofan á. Þar að auki sé verið að færa verksmiðjuna af ótryggum flutningi yfir í tryggan flutning, sem hafi í för með sér enn frekari hækkun og óvissu í verðum.
„Í raun horfum við fram á að flutningur á rafmagni verði fyrst um sinn allt að 500% dýrari en áður. Þegar heildamunurinn á verð á rafmagni og olíu er orðin svona mikil við orkuframleiðsluna segir það sig sjálft að við neyðumst til að brenna olíu,“ segir hann.
Við fullan rekstur getur verksmiðjan verið að nota 20–30 þúsund lítra af olíu á sólarhring, allt eftir magni hráefnis. „Þetta jafngildir því að um 600 bílar fari á hverjum degi á bensínstöð og taki fullan tank,“ bætir Unnar við.
Kolefnissporið eykst verulega
Þessi þróun hefur ekki aðeins áhrif á rekstrarkostnað, heldur einnig á umhverfismál. Brennsla olíu losar margfalt meira kolefni en rafmagn.
„Olía losar kannski 10–15 sinnum meira CO₂ en rafmagn. Þetta eru gríðarlegar tölur,“ segir Unnar. „Það sem stingur mig sérstaklega er að olía er innflutt vara, á meðan við Íslendingar framleiðum rafmagnið sjálfir. Mér finnst eitthvað skakkt við þessa verðlagningu.“
Breytingarnar tengjast meðal annars nýjum taxta Landsnets vegna tryggari flutnings til Vestmannaeyja, lagningar nýs rafstrengs og styrkingar flutningskerfis á Suðurlandi.
„Sem verksmiðjustjóri er staðan hreint út sagt hræðileg. Hér í Vestmannaeyjum erum við að fá frábæra tryggingu á afhendingu á rafmagni en þá sitjum við hér í verksmiðjunni uppi með fjárfestingar sem við munum ekki nýta og þurfum jafnvel að fara í frekari fjárfestingar í olíukötlum. Þetta er þvert á allt sem við höfum stefnt að í orkuframleiðslu og umhverfismálum,“ segir Unnar að lokum.