Síldarveisla VSV: Notaleg aðventuhefð
Hefð er orðin fyrir því að bjóða starfsmönnum, fyrrverandi starfsmönnum og velunnurum Vinnslustöðvarinnar til síldarveislu á aðventunni. Veislan hefur fest sig í sessi sem kærkominn viðburður í aðdraganda jóla og nýtur ár eftir ár mikilla vinsælda.
Það eru þau Ingigerður Helgadóttir og Benóný Þórisson sem bera hitann og þungann af skipulagningu veislunnar. Þau sjá um að verka jólasíld Vinnslustöðvarinnar auk þess að standa fyrir síldarskiptum við önnur uppsjávarfyrirtæki. Með því fá gestir tækifæri til að njóta fjölbreyttrar jólasíldar víðs vegar af landinu.
Á boðstólnum í ár var, auk jólasíldar Vinnslustöðvarinnar, síld frá fjölda uppsjávarfyrirtækja. Meðlætið var klassískt og vel til fundið – kartöflur, rúgbrauð, egg og sinnep – og myndaði með síldinni sannkallaða aðventuveislu í notalegu andrúmslofti.
Síldarveislan er ekki aðeins matarveisla, heldur einnig mikilvægt tækifæri til samveru, spjalls og endurfunda. Hún minnir á gildi góðra samskipta og samstöðu þegar líður að jólum og setur fallegan svip á jólaundirbúninginn hjá Vinnslustöðinni.
Aðeins meira af síld. Þá má geta þess að síldveiðar og vinnsla hafa gengið vel í haust og vetur hjá VSV og er nú brostið á jólafrí eftir annasaman tíma. Starfsemin hefst að nýju strax á nýju ári, þegar haldið verður áfram af krafti í síldarvinnslu.
Myndir frá síldarsmakkinu má sjá hér að neðan.