Þórður og Einar láta af störfum
Í lok síðasta árs kvöddu forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar tvo öfluga og trausta starfsmenn. Þá Þórð Hallgrímsson yfirmann á netaverkstæði VSV og Einar Bjarnason, fjármálastjóra hjá Leo Seafood.
Einar lét af störfum fyrir jól, samhliða því að Leo Seafood lokaði, en Þórður hætti störfum um síðustu áramót. Af því tilefni hittu forsvarsmenn Vinnslustöðvarinnar þá Einar og Bjarna Rúnar son hans í Leo á þeirra síðasta vinnudegi fyrir jól, þar sem Einari var færð kveðjugjöf. Þórði var síðan færð kveðjugjöf á árlegri skötuveislu netaverkstæðisins á Þorláksmessu.
Þórður ásamt Sverri Haraldssyni, sviðsstjóra botnfisks.
„Við byggjum bara við“
Í samtali við fréttaritara vsv.is rifjaði Einar upp skemmtilega sögu sem lýsir vel þeim anda og áræðni sem einkenndi starfsemina í gegnum árin. Vinur hans, Daði Pálsson, hafði rekist á afar glæsilegt og stórt fundarborð í Reykjavík og haft samband við Bjarna Rúnar til að kanna hvort það kæmist ekki örugglega fyrir á skrifstofunni. Bjarni Rúnar mældi því rýmið hátt og lágt og komst að þeirri niðurstöðu að borðið væri einfaldlega of stórt – nánar til tekið um tveimur metrum of langt.
Eftir stutta þögn í símanum kom svarið hjá Daða: „Nú, jæja. Við byggjum þá bara við skrifstofuna.“
Og það varð úr. Ekki var verið að tvínóna við hlutina – lausnin var einföld og framkvæmdin skjót. Að sögn Einars lýsir sagan vel áræðni og verklagi þess tíma, þar sem hlutirnir voru látnir ganga upp með útsjónarsemi og ákveðni.
Þórður hefur starfað hjá Vinnslustöðinni samfellt frá árinu 1989 og Einar hjá Godthaab í Nöf / Leo Seafood frá stofnun fyrirtækisins árið 2001. Vinnslustöðin þakkar þeim báðum innilega fyrir farsælt og ómetanlegt framlag í gegnum árin og óskar þeim velfarnaðar á þessum tímamótum.
Einar ásamt Lilju Björgu Arngrímsdóttur, yfirmanni starfsmannamála hjá VSV.