Þórunn Sveinsdóttir VE-401 seld
Undirritaður hefur verið samningur um sölu Þórunnar Sveinsdóttur VE-401 til Loðnuvinnslunnar á Fáskrúðsfirði. Í kjölfarið verður áhöfn skipsins sagt upp störfum, alls um 20 manns. Samningurinn er með fyrirvara um forkaupsrétt Vestmannaeyjabæjar.
Vinnslustöðin tók við rekstri Óss og Leo Seafood á Sumardaginn fyrsta árið 2023 af fjölskyldu útgerðarmannsins Sigurjóns Óskarssonar. Við það tækifæri sagði Sigurgeir B Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar. ,,Við munum gera út Þórunni Sveinsdóttur áfram með áhöfninni sem þar er og engar breytingar eru heldur fyrirsjáanlegar í Leo Seafood. Félögin sem Vinnslustöðin er nú að kaupa eru vel rekin og góð.“ Þess má geta að meðalhagnaður félaganna sex ár fyrir kaupin (2018 – 2022) nam 480 milljónum króna.
Í sjónvarpsþættinum Landanum (2:20 mín. – 3:20 mín) þann 25. maí síðastliðinn svaraði Daði Pálsson, fyrrum framkvæmdastjóri Leo Seafood, spurningunni hvers vegna fjölskyldan hefði ákveðið að hætta útgerð og fiskvinnslu. Þar sagði hann ákvörðunina byggða á að kvótastaðan væri ekki næg til útgerðar skipsins í 12 mánuði, að þáverandi veiðigjöld kæmu í veg fyrir nýsmíði og síðast en ekki síst að fjölskyldan hafi vitað af áformum Vinnslustöðvarinnar um nýsmíði skipa annars vegar og uppbyggingar fiskvinnslunnar hins vegar. Með sölu til Vinnslustöðvarinnar héldu allir störfum sínum sem og að skip og kvóti héldust í Eyjum.
Hvort tveggja er rétt hjá Daða. Að Vinnslustöðin áformaði nýsmíði skipa í stað Kap og Drangavíkur, sem bæði eru komin til ára sinna og að félagið áformaði nýbyggingu botnfiskvinnslu sinnar. Kostur viðskiptanna var að kaup á Leo Seafood frestuðu frekari fjárfestingum í botnfiskvinnslu og kaup á Þórunni Sveinsdóttur tryggði rekstraröryggi botnfiskveiða þar til ný skip væru tekin í notkun. Öllum þessum áformum Vinnslustöðvarinnar hefur ríkisstjórn Kristrúnar Frostadóttur nú kollvarpað.
Síðan Vinnslustöðin keypti Leo Seafood og Ós hafa stjórnvöld lögfest liðlega tvöföldun veiðigjalda. Í tilfelli Óss hækka veiðigjöld um liðlega 120 milljónir króna og fyrir samstæðu Vinnslustöðvarinnar um 850 milljónir króna (120 milljónir Óss innifaldar og að gefnum þeim forsendum sem voru við útreikninga þessa í vor) þegar þau verða að fullu fram komin.
Sigurgeir B Kristgeirsson segir að sala Þórunnar Sveinsdóttur sé liður í lækkun skulda félagsins, eins og kynnt var í vor. Auk þess hefur verið hætt við áform um nýsmíði botnfiskskipa. Þá hafa áform um lokun Leo Seafood verið kynnt með uppsögn allra starfsmanna félagsins, en nokkrir fengu endurráðningu hjá Vinnslustöðinni.
„Þetta er allt hið sorglegasta mál og þvert á stefnu Vinnslustöðvarinnar, og það sem áður hefur verið sagt. Okkar stefna var að byggja upp traust og öflugt atvinnulíf í Eyjum, samfélaginu sem og þjóðinni allri til hagsbóta. En við förum ekki með lagasetningarvaldið og verðum að hlíta því. Eina sem við getum gert er að bregðast við og það erum við að gera með þessum ráðstöfunum sem bitnar á saklausu fólki, samfélaginu í Eyjum og að lokum á þjóðinni allri.“
Vinnslustöðin óskar Loðnuvinnslunni til hamingju með skipakaupin. Skipið hefur reynst vel og á farsæla sögu. Það verður afhent nýjum eigendum í lok mars.
Stjórnendur og stjórn Vinnslustöðvarinnar munu í kjölfar þessarar ákvörðunar fara yfir næstu skref félagsins.