Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Innsigling Eyjar Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Í dag kom út skýrsla rannsóknarnefndar samgönguslysa (RNSA) vegna óhapps sem varð í innsiglingunni til Vestmannaeyja þann 17. nóvember 2023 þegar akkeri Hugins VE-55 festist í Vestmannaeyjahöfn og olli skemmdum á neysluvatnslögn og ljósleiðara sem liggja þvert yfir innsiglinguna.

Í niðurstöðukafla skýrslunnar kemur fram að:

1. Ekki hafi verið gengið nægilega vel frá akkerisbúnaði skipsins.

2. Skipstjóri hafi ekki haft réttar forsendur til að meta staðsetningu akkerisins.

3. Samskipti milli skipstjórnarmanna og útgerðar hafi verið ábótavant.

4. Staðsetning mikilvægra innviða í innsiglingu til hafnar sé óheppileg.

Um niðurstöðu nefndarinnar er rétt að taka fram að frá frumrannsókn útgerðar Hugins á atvikinu hefur legið ljóst fyrir að áhöfn skipsins hafi ekki gengið nægilega vel frá akkerisbúnaði skipsins og að það hafi orðið til þess að akkerið féll út. Þá liggur einnig fyrir, og kemur það fram í skýrslunni, að vinnustaðamenningu um borð hafi verið ábótavant. Stjórnendur Hugins ehf. taka það alvarlega og hafa bæði fyrir og eftir atvikið unnið að umbótum í þessum efnum og sú vinna stendur enn yfir.

Að því er varðar samskipti milli stjórnenda Hugins ehf. og skipstjórnarmanna, þá er það ekki mat stjórnenda að um hafi verið að ræða stirð samskipti. Þvert á móti voru þau í fullu samræmi við það sem almennt tíðkast í daglegum samskiptum og samstarfi við aðra skipstjóra hjá samstæðu Vinnslustöðvarinnar, móðurfélags Hugins ehf. Þess skal þó getið að eftir kaup Vinnslustöðvarinnar á öllu hlutafé Hugins ehf. urðu breytingar á skipulagi og starfsemi útgerðar skipsins. Fyrrum eigendur útgerðarinnar héldu áfram störfum sem yfirmenn skipsins en þurftu, eins og oft fylgir slíkum breytingum, að aðlagast nýju starfsumhverfi og breyttri stöðu innan skipulagsheildarinnar.

Tryggingafélag útgerðarinnar, VÍS, hefur greitt bætur vegna tjónsins á neysluvatnslögn og ljósleiðara í samræmi við ákvæði siglingalaga, og hefur tjónið þar með verið bætt að fullu samkvæmt lögum. Þrátt fyrir það hafa HS Veitur og Vestmannaeyjabær lýst því yfir að þau sætti sig ekki við þau málalok og undirbúa nú málssókn á hendur bæði útgerðinni og VÍS. Það mál mun hafa sinn gang hjá dómstólum.

Atvikið og afleiðingar þess hafa verið áhöfn Hugins þungbær reynsla, líkt og fyrir aðra sem að málinu hafa komið. Þá hefur málið einnig reynst mörgum í samfélaginu í Vestmannaeyjum erfitt. Útgerðin lítur málið alvarlegum augum og harmar þær aðstæður sem upp komu. Stjórnendur útgerðarinnar leggja áherslu á að málið fái eðlilegan framgang í viðeigandi farvegi og óska jafnframt eftir að opinberri umræðu um það verði stillt í hóf af tillitssemi við alla sem í hlut eiga.