VSV á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni í Qingdao
Alþjóðlega sjávarútvegssýningin í Qingdao var haldin í 28. sinn í haust og dregur að sér fyrirtæki og gesti alls staðar að úr heiminum. Yohei Kitayama, sölustjóri VSV Japan, segir sýninguna vera einn mikilvægasta vettvang í heimi fyrir viðskipti með sjávarafurðir og að þátttaka VSV skipti máli til að fylgjast með þróun markaðarins í Asíu.
Mikilvægur vettvangur fyrir alþjóðlegan sjávarútveg
„Þetta er stærsta sjávarútvegssýningin í Asíu, að umfangi og mikilvægið nánast sambærilegt við sýninguna í Barcelona,“ segir Kitayama.
„Kína er ekki lengur aðeins stærsta áframvinnsla heims, heldur einnig eitt stærsta landið er kemur að neyslu. Það sem gerist í Kína hefur bein áhrif á sjávarútveg um heim allan. Þess vegna finnst mér mikilvægt að við séum á svæðinu, að við finnum taktinn og spennuna í markaðnum af eigin raun.“
Í VSV básnum. Hiroki Igarashi starfsmaður VSV ásamt Egypskum kaupanda.
Skortur á hráefni og hækkandi verð
Þegar hann er spurður um hvað hafi staðið upp úr á sýningunni í ár, segir Kitayama að flestir séu sammála um að framboð á sjávarafurðum standist ekki eftirspurnina.
„Það er orðið mjög augljóst að framboð á nær öllum tegundum sjávarafurða nær ekki að mæta eftirspurn. Við sjáum mikla hækkun á verði helstu tegunda eins og þorsks og makríls,“ segir hann. „Við höfum áhyggjur af því að hækkunin sé orðin það brött að markaðurinn ráði illa við hana.“
Vinnslustöðin hefur, að sögn Kitayama, sterka stöðu sem traustur framleiðandi á alþjóðlegum vettvangi.
„Sem eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki Íslands eru væntingar markaðarins til stöðugrar vöru- og hráefnisframleiðslu miklar. VSV leggur áherslu á heilbrigða virðiskeðju og langtímasamstarf við viðskiptavini, og ég tel að fyrirtækið njóti trausts sem áreiðanlegur birgi.“
Sterk staða í Asíu
Álit Kitayama er að íslenskar sjávarafurðir séu eftirsóttar í Asíu vegna stöðugleika í gæðum, magni og verði.
„Stöðugt framboð, jöfn gæði og sanngjarnt verð – þetta eru helstu atriðin sem gera íslenskar sjávarafurðir aðlaðandi fyrir kaupendur í Asíu,“ segir hann og bætir við að VSV hafi þegar náð sterkri stöðu á markaðnum.
„Við höfum trausta viðskiptavini sem vilja starfa með okkur til lengri tíma. Reyndar er staðan nú sú að eftirspurnin er meiri en við getum fullnægt með núverandi framleiðslugetu,“ segir hann.
Samskiptin milli VSV Japan og höfuðstöðvanna á Íslandi eru mikil og byggja á gagnkvæmu trausti.
„Við reynum að taka þátt í helstu sjávarútvegssýningum í Asíu á hverju ári. Fulltrúar okkar frá Íslandi leggja mikið upp úr því að hitta viðskiptavini okkar á staðnum, og á móti heimsækja margir viðskiptavinir okkar Ísland á vertíðinni til að kynnast starfseminni betur. VSV Japan sér um að samræma þessar heimsóknir í báðar áttir.“
Hiroki (fyrstur frá vinstri) og Yohei Kitayama (annar frá hægri) ásamt starfsmönnum samstarfsaðila VSV.
Aukinn þrýstingur á markaðnum og viðkvæm staða loðnunnar
Þegar talið berst að stöðunni á Asíumarkaði og framboðsáskorunum nefnir Kitayama að það sem komi skýrast fram í samtölum við kaupendur sé sama áhyggjuefnið á öllum vígstöðvum: skortur á stöðugleika. Og hvergi sé það jafn áþreifanlegt og í umræðu um loðnu.
Hann er spurður út í áhrif óstöðugra loðnuveiða undanfarin ár og svarar því til að framboðið hafi einfaldlega ekki náð að halda í við eftirspurn. „Við höfum ekki náð að byggja upp birgðir til að tryggja stöðugt framboð inn á markaðinn og það hefur sett allt kerfið undir þrýsting,“ segir hann.
Afleiðingarnar hafi verið umtalsverðar verðhækkanir, bæði á hrygnu og hæng, og þær hækkanir séu farnar að birtast í veikara flæði inn á neytendamarkað. Þegar varan verði dýrari og aðgengi minna, dragist neysla saman – og það sé þróun sem geti reynst hættuleg ef hún nær að festast í sessi.
„Við höfum áhyggjur af því að áframvinnsluaðilum fækki ef staðan helst svona. Það er raunveruleg hætta á að varan detti einfaldlega úr hillum verslana ef neytendur og áframvinnsluaðilar missa tengingu við hana. Það væri mikið áfall fyrir alla virðiskeðjuna,“ segir hann.
Kitayama leggur áherslu á að lykillinn að lausninni sé ekki flókinn, heldur grundvallaratriði í allri sjávarútvegsstarfsemi: fyrirsjáanleiki. „Við þurfum að geta treyst á sjálfbærar og stöðugar loðnuveiðar. Þetta snýst um að geta staðið við skuldbindingar okkar og tryggt viðskiptavinum hráefni til áframvinnslu.“
Alþjóðlega sjávarútvegssýningin í Qingdao.
Sameiginleg ábyrgð á heilbrigðum markaði
Að lokum segir Kitayama að meginlærdómur sýningarinnar í ár sé sá að sjávarútvegurinn standi frammi fyrir áskorunum í framboði.
„Það er orðið ljóst að við munum eiga í erfiðleikum með að fullnægja þeirri eftirspurn sem er á markaðnum,“ segir hann.
„Verð hefur rokið upp á flestum tegundum vegna hráefnisskorts, og því munu bæði birgjar og kaupendur finna fyrir þrýstingi. Við þurfum að vinna saman til að forðast að „drepa markaðinn“ með of miklum hækkunum, því við viljum viðhalda heilbrigðum markaði til lengri tíma fyrir báða aðila.“