Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Síðhærður friðarins drengur á sjó sumarið 1971. Addi í London á Sæunni VE. Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Ég varð sjötugur 21. janúar og tilbúinn að hætta um það leyti en Sindri Víðars samdi við mig um að vera eitthvað lengur og bæta loðnuvertíðinni 2024 við starfsferilinn. Loðnan sveik okkur og þjóðina alla en ég vann áfram eins og ekkert hefði í skorist.

Hannes [Kristinn Sigurðsson] innkaupastjóri VSV brá sér svo af bæ í frí á Tene og ég ákvað að hreyfa mig ekki fyrr en hann kæmi heim aftur. Það gerðist núna í byrjun vikunnar og þá blasti kveðjustundin mín við. Hlaut að koma að því.

Þetta er réttur tími til að hætta og ég tel mig hafa skilað Vinnslustöðinni mínu og vel það eftir samtals 52ja ára starf þar og í Fiskiðjunni áður en fyrirtækin sameinuðust.

Hulda [Ástvaldsdóttir, eiginkona Adda] vann til fjölda ára í snyrtingu í botnfiskvinnslu VSV og sér núna um þrif og fleira í Idunn Seafood. Hún á að baki 39 starfsár í Vinnslustöðinni og orðar það ekki einu sinni að hætta. Kannski ætlar hún að framlengja starfsferil sinn þar til hún slær mig út? Hvað veit ég?

Ég get bætt því við að sonur okkar, Arnar Freyr, vann að minnsta kosti á einni makrílvertíð í Vinnslustöðinni en síðan lá leiðin annað. Hann útskrifast í vor sem húsasmiður frá Tækniskólanum í Reykjavík.“

Ísleifur Arnar Vignisson, öllu kunnari í Eyjasamfélaginu sem Addi í London, er kominn á eftirlaun. Það telst til svo mikilla tíðinda að þau hafa ábyggilega birtst sem jarðhræring í Heimaey á mælum Veðurstofunnar fyrir sunnan. Hann var kvaddur með virktum og viðhöfn á netaverkstæði Vinnslustöðvarinnar, bækistöð sinni í fyrirtækinu undanfarin ár. Þar segir hann að slái hjarta starfseminnar.

Því verða menn bara að trúa – karlar bæði og konur. Hver mótmælir heimildarmanni með alla þessa starfsreynslu innanbúðar í fyrirtækinu?

Lyklaskipti í Stjórnarráðsstíl

Fimmtudagurinn 18. apríl 2024 var síðasti vinnudagur Adda í London í Vinnslustöðinni og síðdegis var honum haldið veglegt kveðjuhóf á netaverkstæðinu, þar sem hann hefur verið í góðra manna hópi undanfarin ár.

Þarna voru mættir samstarfsmenn úr öllum deildum Vinnslustöðvarinnar, frá Leo Seafood og Marhólmum, fyrrum starfsmenn VSV og fleiri, alls yfir 50 manns.

Kveðjustundin var ekki sérlega formleg nema hvað Andrea Atladóttir, fjármálastjóri VSV, og Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs, færðu Adda fínasta armbandsúr svo hann gæti alltaf verið á réttu tímabelti í tilveru eftirlaunaáranna. Blómvöndur fylgdi með.

Sindri rifjaði upp að í COVID-fárinu hefði þeir Addi deilt kontór á netaverkstæðinu og kynnst vel – sem auðheyrt var að báðum varð til gleði og ánægju.

Hannes K. Sigurðsson innkaupastjóri tók við lykli frá Adda til staðfestingar því að sá fyrrnefndi tæki þar með formlega við verkefnum hins síðarnefnda.

Hið táknræna valdaframsal gaf ekkert eftir lyklaskiptum í Stjórnarráði Íslands í Reykjavík þegar ráðherra stígur upp úr stól sínum og annar tekur við. Lyklaskipti ráðherra fara fram í kastljósum sjónvarpsstöðva en helstu fréttamiðlar landsins létu hins vegar viðburðinn á netaverkstæðinu í Eyjum fram hjá sér fara, sem segir allt um þá.

Fátt var um formleg ræðuhöld en nokkrar sögur um Adda í London og honum tengdar fengu flugið en verða ekki endursagðar hér. Siðprúðir heimildarmenn telja að sögurnar teljist ekki prenthæfar á svo virðulegum vettvangi sem vefur VSV vissulega er. Þar við situr.

Hraustir menn í frystingu

Addi sá um að kaupa umbúðir, vörubretti og ýmsar fleiri rekstrarvörur Vinnslustöðvarinnar og hefur Hannes innkaupastjóri sem sagt tekið við þeim keflum.

Áður var Addi verkstjóri en vann lengst lengst af í frystitækjum Vinnslustöðvarinnar og þar áður Fiskiðjunnar. Þá var slegið úr með höndum og reyndi á þrek og vöðva í skrokkum tækjamanna. Hreinasti óþarfi að hamast í líkamsrækt til að halda sér í formi.

„Ég byrjaði í Fiskiðjunni 1971, þá 17 ára gamall, og var til loka árs 1991 undir hatti þess fyrirtækis. Þá um áramótin sameinuðust Fiskiðjan, Fiskimjölsverksmiðjan – FIVE, Lifrarsamlagið, Gunnar Ólafsson & Co, Knörr og Vinnslustöðin undir merkjum  Vinnslustöðvarinnar en ég var á sama stað næstu sex árin því Vinnslustöðin notaði áfram frystitæki og frystiklefa Fiskiðjunnar.

Frystitækjapúlið var ekki nema fyrir hraustmenni og tók á. Þegar mesti hasarinn var á vertíðum seldust upp öll teygjuarmbönd við sinarskeiðabólgu í apótekinu í Vestmannaeyjum.

Við fengum marga hörkuduglega stráka úr ÍBV í sumarvinnu og sumir þeirra urðu síðar læknar og lögfræðingar eða eitthvað allt annað. Frystitækin voru þeim sem öðrum fínt og heilsusamlegt veganesti út í lífið.

Ég man sérstaklega vel eftir fótboltakappanum Steingrími heitnum Jóhannessyni. Sá dró ekki af sér, hamaðist stöðugt og gerði grín að þeim sem kvörtuðu yfir þreytu eða vöðvaverkjum í baráttunni við pönnurnar í frystingunni.“

Hjörtur lokkaði kappann til Fiskiðjunnar

Alls ekki var sjálfgefið að starfsferill Adda yrði sá sem varð. Hann mátaði sig nefnilega bæði við sjómennsku og húsasmíði en örlögin sköpuðu honum aðra hillu í lífinu. Og sáttur er hann með þá niðurstöðu þegar hann horfir í baksýnisspegilinn.

„Pabbi [Vignir Sigurðsson] var vélstjóri á Sæunni VE-60, báti sem Sigurður Viktorsson gerði út. Sumarið 1971 var ég á sjó á Sæunni en lét það duga. Mér líkaði lífið vel og varð ekki sjóveikur en sjómennskan togaði ekki í mig

[Síðhærði pilturinn með friðarmerki á bringunni og Vestmannaeyjar í baksýn á forsíðumyndinni efst í skjalinu er einmitt Addi í London á Sæunni VE sumarið 1971!]. 

Ég var líka um þetta leyti einn vetur í smíðanámi í Iðnskólanum í Vestmannaeyjum en fann mig heldur ekki þar. Arnar Freyr, sonur minn, tók síðar upp þann þráð.

Hjörtur Hermannsson, yfirverkstjóri í Fiskiðjunni, lokkaði mig til sín í vinnu. Þar var ég í aðgerð til að byrja með en fljótlega færður í frystitækin og var þar næstu ár og áratugi.

Tímarnir voru í fáu sambærilegir við það sem við þekkjum nú þegar vélar og tæknivæðing hefur komið að miklu leyti í stað líkamlegrar vinnu í öllum þáttum starfseminnar. Afköst margfaldast en starfsmönnum fækkar stórlega.

Á loðnuvertíðinni 1974 frystum við alls 1.000-1.200 tonn í Fiskiðjunni sem þótti heill hellingur. Mikið kapp var þá í mannskapnum til sjós og lands að rífa samfélagið upp úr áfalli og drunga gossins. Á fyrstu loðnuvertíðinni minni þótti gott að vinna 100 tonn á sólarhring.“

Starfsmannafélagið drifkraftur félagslífs

„Félagslífið í kringum sjávarútveginn nú er ekki svipur hjá sjón. Bæjarbragur Vestmannaeyja gjörbreyttist á vertíðum þegar heilir herskarar flykktust hingað af meginlandinu til að vinna í fiski. Ég ýki ekkert með því að fullyrða að yfir þúsund manns hafi komið þegar flest var.

Fyrirtækin hýstu fólkið í verbúðum og ráku sjö mötuneyti til að fóðra mannskapinn. Farandverkamönnum fylgdi líf og fjör, eins og nærri má geta. Engir Pólverjar eða Portúgalar og fáir útlendingar yfirleitt en ég minnist samt sænskra krakka sem komu til starfa í Fiskiðjunni. Þau voru fjörug, hress og hörkudugleg.

Og svo mætti söngstjarnan Shady Owens hingað til Eyja til að vinna í fiski og taka þátt í fjörinu eftir gos. Þá var hún á hátindi frægðar sinnar í rokkinu og hafði sungið með öllum helstu hljómsveitum landsins: Óðmönnum, Hljómum, Trúbroti, Tilveru og Náttúru.

Mörg dæmi voru áður fyrr um tvö eða þrjú böll á sama kvöldi í Vestmannaeyjum og ekki gefið að slíkt gerðist bara um helgar. Í landlegum var einfaldlega slegið upp balli eða böllum með lífi og fjöri á hvaða degi sem var á almanakinu. Stundum var erfitt að vakna til vinnu að morgni ef menn höfðu tekið vel á því langt fram á nótt.

Þannig fékk liðið útrás og tilbreytingu í daglegu amstri. Við höfðum hvorki Internet né farsíma til að liggja í.

Starfsmannafélag Vinnslustöðvarinnar var lagt niður og ég sá eftir þeim félagsskap. Það var drifkraftur í félagslífi og stóð fyrir árshátíðum og ógleymanlegum utanlandsferðum starfsmanna.“

Með Herjólfi heim og að heiman

Í spjalli við Eyjamenn á besta aldri tilheyrir að spyrja um minningar frá Heimaeyjargosinu sem hófst 23. janúar 1973. „Fyrir gos“ og „eftir gos“ er eðlileg viðmiðun í tíma og svo gostíminn sjálfur.

Tveimur dögum áður átti Addi í London afmæli og fagnaði tímamótunum í höfuðborginni. Að kvöldi 22. janúar lagði hann upp í ferð heim til Eyja í Herjólfi. Á meðan hann svaf á sínu græna eyra í koju skipsins gerðist nokkuð sem komst á spjöld sögunnar og verður þar skráð svo lengi sem byggð á Íslandi stendur undir nafni.

„Herjólfur sigldi á þessum tíma til og frá Reykjavík og um borð var fjöldi fólks af báðum kynjum á leið á vertíð í Vestmannaeyjum til að vinna mikið, safna peningum og skemmta sér dálítið líka.

Tilkynnt var undir morgun um eldgosið en tekið fram að Herjólfur myndi halda sínu striki og vera til taks til fólksflutninga frá Eyjum ef flugvöllurinn lokaðist.

Ég átti heima við Illugagötu og rölti þangað úr Herjólfi eftir götum þöktum kolsvörtum gosefnum. Með mér var strákur sem kom hingað í fyrsta sinn og hugðist vinnna í fiski. Fyrstu kynni hans af Vestmannaeyjum voru við fordæmalausar aðstæður. Bærinn mannlaus, eldgos í jarðri byggðarinnar og dynjandi öskuregn. Fólkið hafði forðað sér um nóttina með bátum til Þorlákshafnar.

Ástandið var óraunverulegt og langt ofar nokkrum skilningi manns. Ég var dofinn á líkama og sál líkt og aðrir Eyjamenn.

Um miðjan dag lagði Herjólfur úr höfn og um borð við öll sem með honum höfðu komið um morguninn. Við sigldum til Þorlákshafnar og héldum þaðan áfram til Reykjavíkur.

Tilveran fór á hvolf á þann hátt að ekki nokkurn lifandi mann gat grunað að gæti gerst.

Fjölskyldan bjó í Hafnarfirði á gostímanum og ég vann í nokkrar vikur við að reisa Árbæjarskóla i Reykjavík.

Í marsmánuði flutti ég aftur heim og fór að hreinsa bæinn, aðstoða við að dæla sjó á hraunið og taka þátt í því að gera Vestmannaeyjabæ búsældarlegan á ný eftir hamfarirnar.“

Lundinn veiddur og myndaður

Addi í London er þekktur myndadellukarl og hefur meðal annars tekið urmul mynda í Vinnslustöðinni, af skipum hennar og á mannamótum og samkomum fyrirtækisins svo áratugum skiptir. VSV-vefurinn hefur sannarlega notið góðs af því.

Hann skráir söguna á sinn hátt og þarf ekki að hafa mörg orð um menningar- og sögulegt verðmæti þess sem eftir Adda liggur í ljósmyndum í þúsundavís. Hann á gríðarlegt myndasafn, hefur haldið tvær einkasýningar, tekið þátt í samsýningum og birt fjölda mynda í héraðsmiðlum og ritum af ýmsu tagi í Vestmannaeyjum og víðar.

Stóra verkefnið sem bíður hans á nýbyrjuðu eftirlaunaskeiði er að flokka og skrá almennilega myndirnar. Það verður handtak eða tvö.

„Til eru myndir sem ég tók á þrettánda og fjórtánda ári en byrjaði samt ekki að mynda af alvöru fyrr en á gostímanum. Engar myndir tók ég á fyrsta sólarhring gossins og man reyndar ekki hvort ég hafði myndavél yfirleitt tiltæka þá. Alla vega get ég fullyrt að hafa fengið myndadelluna 1973 og aldrei læknast af henni eftir það. Frekar að mér hafi elnað sóttin.

Ég er félagsvera og nýt þess að umgangast fólk – og mynda það líka. Svo hefur ég alltaf verið gegnheill Þjóðhátíðarmaður, notið hverrar mínútu í Herjólfsdal og myndað í áratugi fyrir ÍBV til birtingar í Þjóðhátíðar- og þrettándablöðum félagsins.

Mikið hef ég myndað í blíðri náttúru Vestmannaeyja en ekki síður í brimi við Eyjarnar og hryssingi. Smáeyjar hef ég myndað við öll möguleg skilyrði: Hænu, Hana og Hrauney.

Lundinn hefur líka lengi verið fyrirsæta og margar lundamyndir kaupir fólk til að hafa á vegg hjá sér eða fyrirtæki til að nota í auglýsingum.

Sambandið við lundann er sérstakt því lengi vel var fastur liður að nota hluta sumarleyfa til lundaveiða. Ég var þá á vettvangi með hendur á háfnum en myndavélina hangandi á öxlinni til að fást við fuglinn á tvennan en ólíkan hátt.

Myndavélinni verður síður en svo lagt um leið og ég sjálfur skipti um gír og fer í lágdrifið. Myndasafnið kallar á mikla vinnu en annars bíður mín að dytta að húsinu okkar og gróðri í garðinum.

Tímamótin núna eru auðvitað mikil en að þeim hlaut að koma. Ég kveð vinnufélagana og vinnustaðinn afskaplega sáttur og þakklátur.“

London = Lundúnir?

Að lokum þetta.

Addi í London er ekki kenndur við heimsborgina Lundúnir heldur við hús sem langafi hans, Magnús Ísleifsson húsasmíðameistari, reisti árið 1906 á lóð nr. 3 við Miðstræti í Vestmanneyjum og nefndi London.

Eyjamenn nefndu yfirleitt húsin sín, jafnvel eftir erlendum borgum. Þannig reis annað hús sem Edinborg heitir og hið þriðja er Boston, svo dæmi séu tekin.

Foreldrar Adda bjuggu í London en sjálfur ólst hann upp hjá ömmu sinni og afa en var auðvitað oft í London og þá frekar sem nákominn gestur. Engu að síður festist húsheitið við Adda og móður hans líka en ekki við systkini hans.